Fyrsta vikan á Indlandi

Þá er liðin rúmlega vika frá því að ég lenti á Indlandi.

Vikan hefur verið tiltölulega róleg. Á miðvikudaginn fórum við Eszter út að borða, þar sem hún átti fríkvöld, og þar að auki frí daginn eftir. Fyrir valinu varð indverskur grænmetisstaður sem við höfðum séð í maí og fengum við fínan mat og síað kranavatn, en ósíaða útgáfan á það til að gera óvana menn verulega veika.

Eitthvað virðist það hafa klikkað, þar sem við fengum bæði í magann - og ég eyddi lunganum af næsta degi á klósettinu og í rúminu. Því var ákveðið að halda sig við flöskuvatn á veitingastöðum í framtíðinni.

Á föstudag og laugardag reyndi ég loksins að byrja að vinna að ráði. Planið er að vinna í fjarvinnu fyrir Púkann, svo það eina sem ég þarf er fartölva, nettenging og réttu forritin. Þetta með réttu forritin er dálítið vesen, þar sem VPN-forritið til að tengjast vinnunni virkar ekki á stýrikerfinu mínu (64 bita Windows XP). Ef ég vil hafa eitthvað samband við vinnuna þarf ég semsagt að gera það í gamla XP, sem þýðir að ég þurfti að setja upp slatta af forritum þeim megin, og m.a. sækja 2 geisladiska yfir netið (sem tók 6 tíma á nettenginunni hér). Það er loksins komið í lag, svo það er um að gera að blogga í stað þess að vinna...

Í gær fékk ég mér loksins indverskt GSM númer, og ég birti það hér um leið og ég kemst að því hvað það er. Skráningarferlið er örlítið flóknara en heima. Ég þurfti að afhenda eina ljósmynd, ljósrit af passa og  leigusamningi, og gefa alls 6 eiginhandaráritanir.
Símnotkun innan héraðsins er hræbilleg -  1-2 rúpíur (2-3kr) mínútan/SMS-ið eftir því í hvern er hringt. Það kom mér samt nokkuð á óvart að það virðist vera ódýrara fyrir mig að hringja í íslenska heimasíma (~11kr/mín) og senda SMS til Íslands (~8kr) en ef ég væri með íslenskan farsíma á Íslandi. Símtöl í evrópska farsíma eru um 16kr mínútan, sem er víst svipað og heima. Nú get ég víst ekki lengur sagt mömmu að ég geti ekki talað við hana því það sé svo dýrt.

Restin af gærdeginum fór svo í verslunarferðir og annað stúss. Við fundum skrifborð og hillu úr mangóviði, gardínuefni, náttlampa og ýmislegt fleira smálegt fyrir íbúðirnar okkar. Skrifborðið máttum við þó ekki kaupa þar sem það var eina eintakið í búðinni, en við ættum að fá sambærilegt skrifborð frá þeim á næstu dögum...

To-do listi fyrir næstu blogg færslur.
Segja frá íbúðunum sem við höfum.
Segja frá því helsta sem veldur menningarsjokki.
Grafa upp myndavélarnar og fara að setja inn myndir, þar sem við höfum ætlað að setja inn myndir síðan um jólin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að fá Indlandsblogg á Íslensku - hlakka líka til að sjá myndir, þó það taki etv marga tima að hlaða þeim á netið. 

Knús frá okkur öllum

Una, Helgi og Iðunn 

Una (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 12:48

2 identicon

Æ en gaman. Nú getur þú hringt í mig daglega.

mamman (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 14:43

3 identicon

Sæl hjón, og takk fyrir síðast. Þið hafið kannski gaman af að vita (og gagn) að er við fórum í útilegu um daginn kvartaði samferðafólk okkar yfir að hafa ekki Stroh í kakóið svo ég gaf þeim Tokaji Pálinka úr flöskunni sem Einar gaf okkur er hann flutti úr íbúðinni, og það kom alveg ljómandi vel út í SvissMiss. Hafið það sem best, kveðja Nonni og Guðrún Ásta.

Jón Þór Sævarsson (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband