Lentur á Indlandi

Þá er maður loksins fluttur til Indlands. Ég flaug af stað á laugardagsmorgun, og var kominn á áfangastað um kaffileytið á sunnudegi.

Ég fór á flugvöllinn í flíspeysu og regnjakka, með úttroðinn bakpoka, 2 handtöskur og stóra eftirprentun af málverki eftir Csontvary.

Iceland Express gerði engar athugasemdir við handafarangurinn hjá mér, en Air India voru ekki eins skemmtilegir. Þeir leyfðu heil 32 kg í farangur, en aðeins eina 8kg tösku plús fartölvu í handfarangur. Ég ætlaði því að tékka inn aðra handtöskuna en þeir voru á því að að 23kg bakpoki og 15 kg taska voru örlítið yfir mörkunum. Auk þess þurfti að létta handfarangurinn um 4kg, en með fartölvunni mátti ég samtals hafa 11kg. Nú voru góð ráð dýr þar sem kílóið í yfirvikt kostaði 30 pund, og þessi 10kg hefðu því kostað mig álíka mikið og ég borgaði í maí fyrir farmiða frá London til Indlands og til baka. Þessi öðlingar í innrituninni buðu mér því að:
1) borga 300 pund.
2) senda eitthvað með cargo (lágmark 150pund, afhent eftir viku),
3) henda 1/5 af því sem ég hafði komið með í næstu ruslatunnu.

Ég sagðist ætla að íhuga þriðja kostinn, og fór að næstu vikt. Ég fór svo í gegnum báðar handtöskurnar með það að markmiði að koma þeim undir þyngdarmörkin.
Bókum, hörðum diskum og öðru þungu dóti var troðið í vasa á flíspeysunni og regnjakkanum, en skór og stærri bækur fóru í plastpoka sem ég tók með mér að innrituninni. Ég þurfti að bíða hátt í klukkutíma í röð, kappklæddur og með úttroðna vasa.

Það hafðist - Farangurinn var 31 kíló og handtaskan 8, svo að ég gat bætt stærstu bókinni úr plastpokanum við farangurinn.  Plastpokinn hvarf svo ofan í handtöskuna en ekki ruslafötu svo að samtals fóru tæp 55 kg með til Indlands.

Ég er enn að jafna sig á 5 og hálfs tíma tímamismun, en þetta er allt að koma. Núna er monsún-tímabil svo að veðrið er þolanlegt - um 30 stiga hiti og léttskýjað. Það hefur ekki enn rignt síðan ég kom, og ég er strax farinn að taka lit.

Fyrstu dagarnir hafa verið rólegir. Mánudagurinn fór í skráningu og að koma sér fyrir í íbúðinni.
Þriðjudagurinn fór í að finna kattamat handa Sir Rya (sem við höfum verið að passa síðan í maí), reyna að fá farsímakort, tengja fartölvuna og annað smálegt.
Í dag var svo planið að reyna að vinna eitthvað, en í staðinn fór mestallur dagurinn í að hanga á netinu og skrifa blogg. Ég byrja að vinna á fullu á morgun, eða hinn, og myndir fara svo að detta inn eftir það.

Það gekk ekki þrautalaust að skrifa þetta, þar sem netið á það til að detta út og maður þarf að tengjast aftur. Þetta er þó hátíð miðað við Tal heima á Íslandi, sem gerðu mig sambandslausan í rúmar 3 vikur vegna mistaka við flutning frá Vodafone.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkominn í bloggheima. Vertu nú duglegur að blogga.

fk (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband