19.7.2008 | 11:16
Fjarskiptavandræði
Í fyrradag fékk ég eftirfarandi SMS frá farsímafélaginu mínu:
(1/2)As per Govt. directives services on your Airtel Mobile have been discontinued due to non-receipt of your Prepaid Enrollment Form.
(2/2)Kindly deposit them at the dealer from where you purchased your Airtel Mobile & enjoy uninterrupted services.
Daginn eftir hætti ég að geta hringt úr símanum, þó að ég geti ennþá tekið við símtölum (að ég held - Númerið er hægt í dálknum til vinstri fyrir þá sem vilja prófa. Athugið að ég er fimm og hálfum tíma á undan Íslandi).
Hér þarf maður sem sagt að skrá sig (og m.a. nafn föður eða móður) fyrir símkorti, og skila inn ljósriti af vegabréfi og leigusamningi.
Síðan þarf seljandinn (í þessu tilviki sjoppa sem selur allt frá þvottaefni að minniskortum í myndavélar) að koma þessum pappírum til símafyrirtækisins innan nokkurra daga til að halda númerinu virku.
Og þetta kalla þeir GSM Frelsi...
Seljandinn segir þó að þetta sé bara "Network problem" og að pappírarnir séu löngu farnir frá þeim. Þetta minnir mikið á "Manana" möntru S-Ameríkubúa (þetta kemur á morgun...)
Núna er internetið bilað í íbúðinni okkar svo að ég get ekki unnið, og neyðist til að blogga í staðinn.
Það stendur þó til bóta þar sem ég er búinn að útvega mér pláss í skrifstofu á besta stað í bænum,
með 4Mb internettengingu hjá fyrirtækinu Ensarm Solutions, sem samanstendur af 6 Indverjum og Þjóðverja. Eigandinn Deba er vinur fráfarandi dagskrárstjóra Sangam
(starfið sem Eszter vinnur núna), og mér var bent á að hann gæti aðstoðað mig við að finna pláss. Ég hitti hann í fyrradag og hann fór yfir stöðuna á leigumarkaði hér, sem að hans sögn er ekkert sérstaklega góð.
Síðan bauð hann mér að koma á skrifstofuna sína að hitta sitt fólk, með það í huga að troða mér inn þar. Það var á endanum samþykkt, svo að eftir 1-2 vikur fæ ég herbergi í íbúð í Koreagon Park sem búið er að breyta í skrifstofu.
Hann ætlar að reikna út sanngjarnt verð fyrir kostnað við leigu, rafmagn, internet og annað og búa til leigusamning.
Stærsta áhyggjuefni hans var að ég sé að fara að stofna útibú hér og ætli að stela frá honum starfsfólki, svo það verður sérstök "anti-poaching" klausa í samningnum um að ég megi ekki snöggsjóða starfsmennina hans.
Að öðru leyti gengur bara nokkuð vel. Í gær var frídagur hjá Eszter svo að ég færði helgina fram um einn dag.
Við fórum í túristaleik að skoða musteri og rölta um bæinn, og enduðum daginn á hóphugleiðslu og fyrirlestri í hugleiðslumiðstöð rétt hjá.
Þar að auki boraði ég í veggi í herberginu okkar í Sangam og við hengdum upp hillur, klukku, leslampa og styttu af indverskum guði, svo það er orðið mun heimilislegra en áður.
Myndir koma bráðum...
Athugasemdir
Gaman að fylgjast með ævintýrum þínum á Indlandi. Vertu duglegur að blogga. Sérstakt þetta með skráningu á SIM korti. Af hverju eru þeir með þessar takmarkanir?
Hrannar Baldursson, 19.7.2008 kl. 11:37
Við hlökkum til að sjá myndir - væri gaman að fá einhverjar af vistarverum ykkar líka svo við getum séð hvernig þið búið. Vonandi kemst síminn brátt í lag, en á meðan hefurðu þó góða afsökun fyrir að hringja ekki í mömmu þína (samanber fyrri póst).
Iðunn sendir knús og koss á Eszter bestu vinkonu sína
Una Helgi P og Iðunn
Una og co. (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 10:21
Hrannar: Þegar stórt er spurt...
Ég hef ekki spurt innfædda að þessu, en í Malasíu og Singapore er álíka skráning "af öryggisástæðum", svo að menn fari nú ekki að nota nafnlausa farsíma til að setja af stað sprengjur. Aðrir kenna stóra bróður um.
Svo gengur náttúrulega ekki að ferðamenn á Indlandi geti bara keypt símkort og hringt heim á 10-15kr mínútugjaldi í stað þess að borga 419kr eða 3,35 fyrir hverja byrjaða mínútu eins og þessir öðlingar hjá íslensku símafyrirtækjunum rukka mann um.
Einar Jón, 20.7.2008 kl. 11:22
Já, ætli þetta sé ekki frekar tengt peningum, eins og flest boð og bönn þessa dagana. Hvernig er annars verðið á DVD myndum þarna úti, af topp 250 listanum okkar góða?
Hrannar Baldursson, 20.7.2008 kl. 11:38
Elsku Einar og Ezster
Við bíðum og bíðum eftir myndum af herlegheitunum.
mamman (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.