31.12.2008 | 07:20
Jólin búin...
Jólin hérna voru... öðruvísi. Eszter fékk frí frá aðfangadegi fram á laugardag, svo að við höfðum óvenjulega mikinn tíma saman yfir jólin.
Á aðfangadagskvöld fórum við í partí hjá nokkrum Indverjum sem sjálfboðaliðarnir þekktu. Við höfðum aldrei hitt þá áður, en þeir voru mjög fínir og kvöldið var vel heppnað. Sjálfboðaliðarnir höfðu verið skipaðir í það að elda jólamatinn, en einhvern vegin tókst þeim að breyta planinu í að við myndum baka okkar eigin pitsur. Strákarnir keyptu 35 pitsubotna fyrir innan við 10 manns svo að það var meira en nóg til. Ég gaf Eszter myndavélarsíma, en hún er hrædd við að nota svona dýrar græjur svo að hún er enn með gamla símann.
Á jóladag var svo haldið upp á jólin í Sangam. Flestir elduðu sinn eigin rétt og svo var öllu blandað samam. Við Eszter eyddum stórum hluta af aðfangadeginumog jóladegi í að þræða búðir í leit að hráefni í ungverska köku, en á endanum bjó hún til köku úr pönnukökum. Um kvöldið var svo áætlað að horfa á jólamyndir með sjálfboðaliðunum "áður en jólin kláruðust" hjá þeim, því það eru ekki allir sem hafa 13 daga jól.
Næstu 2 dagar fór svo í að leita að dóti í íbúðina. Við létum framkalla rúmlega 50 myndir af vinum og ættingjum til að setja upp á vegg, og erum búin að kaupa og setja upp innrammaða mynd af Reykjavík, bronsgrímur frá Hindustan, Búdda-króka, plexiglerhlíf við baðvaskinn og fleira smálegt. Í öllum hamaganginum láðist að taka myndir af herlegheitunum, en það er alveg að koma...
Við eyddum líka löngum tíma í að finna skrifstofur flutningafyrirtækja sem gæru sótt nýja vegabréfið hennar Eszterar frá sendiráðinu í Delhi og sent til okkar, en á endanum bentu þau öll hvert á annað með því að segja að eitt af hinum fyrirtækjunum væri það eina sem gerði svoleiðis. Við leystum vandamálið með því að hringja í eina Íslendinginn sem ég þekki persónulega á Indlandi og báðum hann að redda málunum. Sem betur fer vinnur hann í göngufæri við sendiráðið svo að það er lítið mál.
Áramótin verða svo haldin í Sanskruti, með hópi frá nýja-Sjálandi og Ásralíu.
Athugasemdir
Gleðilegt ár, krakkar mínir.
Við bíðum enn þá þokkalega þolinmóð eftir myndum af íbúðinni ykkar. Gott að þið eruð samt komin með myndir af fjölskyldu meðlimum upp á vegg hjá ykkur. Það er örugglega flott.
Hafið það gott á nýja árinu og njótið lífsins.
FK (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.