Fréttaskammtur

Það var frekar mikið að gera í síðustu viku. Vegabréfsvandræðum Eszterar lauk loksins um síðustu helgi. Ungverski ræðismaðurinn í Mumbai flutti vegabréfið frá Delhi til Mumbai, svo að við fórum þangað að sækja það á laugardaginn í síðustu viku. Í Mumbai keyptum við líka fataslár fyrir fötin okkar og skoðuðum loksins Taj Mahal hótelið sem var aðalvettvangur hryðjuverkaárásanna í nóvember, en vorum komin heim um kvöldið.

Það mátti ekki seinna vera, þar sem vegabréfsáritunin okkar rennur út í þessari viku. Það var næstum því súrrealísk reynsla að sækja um framlengingu. Á mánudaginn þurftum við að fara á FRO (Foreigner Registration Office) en á leiðinni þangað sprakk á mótorhjólinu. Ég sendi Eszter áfram á rickshaw á meðan ég lét gera við dekkkið. Hálftíma seinna var ég kominn á FRO, en þar var okkur bent á að framlengingar væru meðhöndlaðar á öðrum stað í bænum. 
Þar var biðröð út úr dyrum þegar við komum, en eftir korter í þeirri röð var okkur bent á að hún væri bara fyrir Írani og við mættum fara beint inn. Við komum inn í stórt herbergi með fullt af skrifborðum, og biðraðir fyrir framan flestar þeirra. Okkur var bent á lengstu biðröðina, en eftir korter í þeirri röð komumst við að því að þetta skrifborð var bara fyrir stúdenta-visa og við áttum að fara á skrifborðið á bakvið þetta.
Þar fengum við loksins eitt eintak af umsókn um framlengingu (sem við þurftum að ljósrita sjálf) og máttum skrifa niður af blaði allar upplýsingar um þau gögn sem við þurftum að framvísa. Eitt af því var "Indeminty bond" þar sem Indverji þurfti að taka á sig ábyrgð á okkur, og allan kostnað við að koma okkur úr landi ef við geispum golunni hér á landi.
Svoleiðis var útbúið og undirritað af Darshönu, næsta yfirmanni Eszterar. Á föstudaginn var allt klár fyrir næstu umferð, en þar sem þetta "Indeminty bond" var ekki vottað af lögbókanda þurftum við aftur frá að hverfa.
Á laugardaginn héldum við að allt væri á hreinu, en ennþá vantaði ljósrit af pappírum Darshönu til að sanna að hún væri Indverji. Ég fór og sótti þá á meðan Eszter skoðaði búðir í nágrenninu. Að lokum var allt komið svo að umsóknirnar gengu fram og til baka í herberginu í smá stund að safna stimplum og undirskriftum, en að lokum tókst þetta svo að við erum lögleg á Indlandi í bili, a.m.k. þangað til umsóknunum okkar verður hafnað.

--

Við ákváðum líka að halda innflutningspartí á fimmtudaginn. Sunnudagurinn fyrir það fór því í að þrífa og hengja upp myndir, spegil, snaga og fataslár og annað smálegt.
Við höfðum pantað líka svefnsófa frá Fabindia sem skilaði sér seint og illa vegna verkfalla bensínafgreiðslumanna, vörubílstjóra og af öðrum ástæðum, en kom loksins daginn fyrir partíið.

Allt gekk þó upp og úr varð ágætis partí, þrátt fyrir allt stressið í kringum vegabréfin. Ég hafði meira að segja tíma til að taka myndir af íbúðinni, og á bara eftir að setja þær inn á Picasa.

--

Afi Eszterar hefur haft það ágætt. Það er hópur af nýsjálenskum og áströlskum stelpum hérna sem hefur nánast ættleitt hann, og hann fór með þeim í fjöldann allan af ferðum um Pune og nágrenni. Þær fara heim á næstu dögum, en við Eszter förum með hann í langa helgarferð til Goa seinna í vikunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband