Myndir

Búinn að setja inn nokkrar myndir á Picasa.

Monsoon wedding

Síðustu vikur hafa verið frekar rólegar hér á Indlandi. Eszter er á kafi í vinnu, og ég geri lítið annað en að fara í og úr vinnu. Um þarsíðustu helgi var örlítil breyting á rútínunni, þar sem ein af fyrrverandi starfsmönnum í Sangam var að giftast Indverja af hástéttum. Hún er frá Kanada og þau giftu sig þar í vetur, en ákváðu að halda líka veislu hér fyrir hans fjölskyldu, og um 20 ættingjar hennar komu með.
Þeir sem hafa séð myndina Monsoon wedding fara nokkuð nærri um hvernig það fer fram. Fyrir hina get ég upplýst að þau eru stór og íburðarmikil, og taka 3 daga.  Fyrsti dagurinn er n.k. gæsaveisla þar sem fjöskylda brúðgumans tekur á móti fjölskyldu brúðarinnar. Konurnar fá allar mehendi (henna-liti á hendur og fætur) og brúðurin sjálf fær sérstaklega íburðarmikla skreytingu.
Á degi 2 er athöfnin sjálf, með hrúgum af blómaskreytingum og alls konar fíneríi sem endar að sjálfsögðu í risastórri veislu.

p7260511_626808.jpg

 Þriðji dagurinn er svo "prívat" kvöldverður með helstu vinum og ættingjum (venjulega um 100 manns). Þar sem Eszter var að vinna náðum við bara í lokakvöldverðinn, en hann einn og sér var íburðarmeiri en flest íslensk brúðkaup.
Síðustu helgi eyddum við í Mumbai - nánar af því síðar...


Fjarskiptavandræði

Í fyrradag fékk ég eftirfarandi SMS frá farsímafélaginu mínu:
(1/2)As per Govt. directives services on your Airtel Mobile have been discontinued due to non-receipt of your Prepaid Enrollment Form.
(2/2)Kindly deposit them at the dealer from where you purchased your Airtel Mobile & enjoy uninterrupted services.


Daginn eftir hætti ég að geta hringt úr símanum, þó að ég geti ennþá tekið við símtölum (að ég held - Númerið er hægt í dálknum til vinstri fyrir þá sem vilja prófa. Athugið að ég er fimm og hálfum tíma á undan Íslandi).
Hér þarf maður sem sagt að skrá sig (og  m.a. nafn föður eða móður) fyrir símkorti, og skila inn ljósriti af vegabréfi og leigusamningi.
Síðan þarf seljandinn (í þessu tilviki sjoppa sem selur allt frá þvottaefni að minniskortum í myndavélar) að koma þessum pappírum til símafyrirtækisins innan nokkurra daga til að halda númerinu virku.
Og þetta kalla þeir GSM Frelsi...
Seljandinn segir þó að þetta sé bara "Network problem" og að pappírarnir séu löngu farnir frá þeim. Þetta minnir mikið á "Manana" möntru S-Ameríkubúa (þetta kemur á morgun...)

Núna er internetið bilað í íbúðinni okkar svo að ég get ekki unnið, og neyðist til að blogga í staðinn.
Það stendur þó til bóta þar sem ég er búinn að útvega mér pláss í skrifstofu á besta stað í bænum,
með 4Mb internettengingu hjá fyrirtækinu Ensarm Solutions, sem samanstendur af 6 Indverjum og Þjóðverja. Eigandinn Deba er vinur fráfarandi dagskrárstjóra Sangam
(starfið sem Eszter vinnur núna), og mér var bent á að hann gæti aðstoðað mig við að finna pláss. Ég hitti hann í fyrradag og hann fór yfir stöðuna á leigumarkaði hér, sem að hans sögn er ekkert sérstaklega góð.
Síðan bauð hann mér að koma á skrifstofuna sína að hitta sitt fólk, með það í huga að troða mér inn þar. Það var á endanum samþykkt, svo að eftir 1-2 vikur fæ ég herbergi í íbúð í Koreagon Park sem búið er að breyta í skrifstofu.
Hann ætlar að reikna út sanngjarnt verð fyrir kostnað við leigu, rafmagn, internet og annað og búa til leigusamning.
Stærsta áhyggjuefni hans var að ég sé að fara að stofna útibú hér og ætli að stela frá honum starfsfólki, svo það verður sérstök "anti-poaching" klausa í samningnum um að ég megi ekki snöggsjóða starfsmennina hans.

Að öðru leyti gengur bara nokkuð vel. Í gær var frídagur hjá Eszter svo að ég færði helgina fram um einn dag.
Við fórum í túristaleik að skoða musteri og rölta um bæinn, og enduðum daginn á hóphugleiðslu og fyrirlestri í hugleiðslumiðstöð rétt hjá.
Þar að auki boraði ég í veggi í herberginu okkar í Sangam og við hengdum upp hillur, klukku, leslampa og styttu af indverskum guði, svo það er orðið mun heimilislegra en áður.

Myndir koma bráðum...


Fyrsta vikan á Indlandi

Þá er liðin rúmlega vika frá því að ég lenti á Indlandi.

Vikan hefur verið tiltölulega róleg. Á miðvikudaginn fórum við Eszter út að borða, þar sem hún átti fríkvöld, og þar að auki frí daginn eftir. Fyrir valinu varð indverskur grænmetisstaður sem við höfðum séð í maí og fengum við fínan mat og síað kranavatn, en ósíaða útgáfan á það til að gera óvana menn verulega veika.

Eitthvað virðist það hafa klikkað, þar sem við fengum bæði í magann - og ég eyddi lunganum af næsta degi á klósettinu og í rúminu. Því var ákveðið að halda sig við flöskuvatn á veitingastöðum í framtíðinni.

Á föstudag og laugardag reyndi ég loksins að byrja að vinna að ráði. Planið er að vinna í fjarvinnu fyrir Púkann, svo það eina sem ég þarf er fartölva, nettenging og réttu forritin. Þetta með réttu forritin er dálítið vesen, þar sem VPN-forritið til að tengjast vinnunni virkar ekki á stýrikerfinu mínu (64 bita Windows XP). Ef ég vil hafa eitthvað samband við vinnuna þarf ég semsagt að gera það í gamla XP, sem þýðir að ég þurfti að setja upp slatta af forritum þeim megin, og m.a. sækja 2 geisladiska yfir netið (sem tók 6 tíma á nettenginunni hér). Það er loksins komið í lag, svo það er um að gera að blogga í stað þess að vinna...

Í gær fékk ég mér loksins indverskt GSM númer, og ég birti það hér um leið og ég kemst að því hvað það er. Skráningarferlið er örlítið flóknara en heima. Ég þurfti að afhenda eina ljósmynd, ljósrit af passa og  leigusamningi, og gefa alls 6 eiginhandaráritanir.
Símnotkun innan héraðsins er hræbilleg -  1-2 rúpíur (2-3kr) mínútan/SMS-ið eftir því í hvern er hringt. Það kom mér samt nokkuð á óvart að það virðist vera ódýrara fyrir mig að hringja í íslenska heimasíma (~11kr/mín) og senda SMS til Íslands (~8kr) en ef ég væri með íslenskan farsíma á Íslandi. Símtöl í evrópska farsíma eru um 16kr mínútan, sem er víst svipað og heima. Nú get ég víst ekki lengur sagt mömmu að ég geti ekki talað við hana því það sé svo dýrt.

Restin af gærdeginum fór svo í verslunarferðir og annað stúss. Við fundum skrifborð og hillu úr mangóviði, gardínuefni, náttlampa og ýmislegt fleira smálegt fyrir íbúðirnar okkar. Skrifborðið máttum við þó ekki kaupa þar sem það var eina eintakið í búðinni, en við ættum að fá sambærilegt skrifborð frá þeim á næstu dögum...

To-do listi fyrir næstu blogg færslur.
Segja frá íbúðunum sem við höfum.
Segja frá því helsta sem veldur menningarsjokki.
Grafa upp myndavélarnar og fara að setja inn myndir, þar sem við höfum ætlað að setja inn myndir síðan um jólin.


Lentur á Indlandi

Þá er maður loksins fluttur til Indlands. Ég flaug af stað á laugardagsmorgun, og var kominn á áfangastað um kaffileytið á sunnudegi.

Ég fór á flugvöllinn í flíspeysu og regnjakka, með úttroðinn bakpoka, 2 handtöskur og stóra eftirprentun af málverki eftir Csontvary.

Iceland Express gerði engar athugasemdir við handafarangurinn hjá mér, en Air India voru ekki eins skemmtilegir. Þeir leyfðu heil 32 kg í farangur, en aðeins eina 8kg tösku plús fartölvu í handfarangur. Ég ætlaði því að tékka inn aðra handtöskuna en þeir voru á því að að 23kg bakpoki og 15 kg taska voru örlítið yfir mörkunum. Auk þess þurfti að létta handfarangurinn um 4kg, en með fartölvunni mátti ég samtals hafa 11kg. Nú voru góð ráð dýr þar sem kílóið í yfirvikt kostaði 30 pund, og þessi 10kg hefðu því kostað mig álíka mikið og ég borgaði í maí fyrir farmiða frá London til Indlands og til baka. Þessi öðlingar í innrituninni buðu mér því að:
1) borga 300 pund.
2) senda eitthvað með cargo (lágmark 150pund, afhent eftir viku),
3) henda 1/5 af því sem ég hafði komið með í næstu ruslatunnu.

Ég sagðist ætla að íhuga þriðja kostinn, og fór að næstu vikt. Ég fór svo í gegnum báðar handtöskurnar með það að markmiði að koma þeim undir þyngdarmörkin.
Bókum, hörðum diskum og öðru þungu dóti var troðið í vasa á flíspeysunni og regnjakkanum, en skór og stærri bækur fóru í plastpoka sem ég tók með mér að innrituninni. Ég þurfti að bíða hátt í klukkutíma í röð, kappklæddur og með úttroðna vasa.

Það hafðist - Farangurinn var 31 kíló og handtaskan 8, svo að ég gat bætt stærstu bókinni úr plastpokanum við farangurinn.  Plastpokinn hvarf svo ofan í handtöskuna en ekki ruslafötu svo að samtals fóru tæp 55 kg með til Indlands.

Ég er enn að jafna sig á 5 og hálfs tíma tímamismun, en þetta er allt að koma. Núna er monsún-tímabil svo að veðrið er þolanlegt - um 30 stiga hiti og léttskýjað. Það hefur ekki enn rignt síðan ég kom, og ég er strax farinn að taka lit.

Fyrstu dagarnir hafa verið rólegir. Mánudagurinn fór í skráningu og að koma sér fyrir í íbúðinni.
Þriðjudagurinn fór í að finna kattamat handa Sir Rya (sem við höfum verið að passa síðan í maí), reyna að fá farsímakort, tengja fartölvuna og annað smálegt.
Í dag var svo planið að reyna að vinna eitthvað, en í staðinn fór mestallur dagurinn í að hanga á netinu og skrifa blogg. Ég byrja að vinna á fullu á morgun, eða hinn, og myndir fara svo að detta inn eftir það.

Það gekk ekki þrautalaust að skrifa þetta, þar sem netið á það til að detta út og maður þarf að tengjast aftur. Þetta er þó hátíð miðað við Tal heima á Íslandi, sem gerðu mig sambandslausan í rúmar 3 vikur vegna mistaka við flutning frá Vodafone.


Indlandsblogg

Hér verður bloggað frá Indlandi. Eszter hefur verið að vinna á fullu í Sangam síðan í febrúar. Hún hefur ekki haft neinn tíma til að blogga, og í þau fáu skipti sem hún gerir notar hún ungversku - sem er óskiljanleg fyrir flesta sem lesa þetta.

Ég flýg út fyrstu helgina í júlí og reyni að koma með fréttir og myndir eftir það.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband