2.11.2008 | 17:50
"Jólafrí" í október
Í síðustu viku var Diwali hér á Indlandi, sem eru nokkurs konar Hindúajól. Það þýddi náttúrulega ekkert að vinna á meðan svo að við Eszter fórum til Kerala í frí. Við vorum á ferð og flugi mestalla vikuna, og netlaus allan tímann svo það varð lítið úr reglulegum, stuttum uppfærslum á blogginu eins og ég hafði vonast til.
Kerala er hérað á suðurodda Indlands. Maharastra (þar sem við búum) og Kerala eru í raun eins ólík og Þýskaland og Spánn, svo það var margt að sjá þessa vikuna. Í Kerala er kristni ríkjandi, en trúin er samt að indverskum sið þ.a. víða eru búr með dýrlingum (í stíl við Ganesh-musterin hér) og Jesúmyndir með blikkandi ljósum voru í flestum rútum. Við vorum mest hissa á að sjá ekki 8 arma Maríu mey eða bláan Jesú með slöngu um hálsinn.
Eszter var spenntust fyrir því að prófa dosa (sem er nokkurs konar pönnukaka) á heimaslóðum þess en við komumst fljótt að því að maturinn í Kerala er alls ekkert spes, og það eru margir staðir í Pune sem bjóða upp á mun betri útgáfur af Kerala-réttunum. Sjávarréttirnir þar voru góðir, en inni í landi var fátt bitastætt á matseðlinum.
--
Við byrjuðum ferðalagið á því að taka rútuna til Mumbai á föstudagskvöldið. Þegar við komum að rútustöðinni var kílómetra löng röð að ríkisrútunum svo að við ákváðum að prófa einkareknu rúturnar til að spara okkur biðina. Það reyndist ekki spara mikið, þar sem einkarútan átti ekki að fara fyrr en 45 mínútum síðar, og við þurftum að bíða í hálftíma í viðbót eftir að hún færi af stað. Á endanum komumst við þó til Mumbai.
Laugardeginum eyddum við svo í Mumbai þar sem við uppgötvuðum lestina, sem kostar 4 rúpíur (ca. 10 kr.) og er mun fljótari á milli staða en leigubílarnir. Síðan var flogið til Cochin þar sem við eyddum fyrstu nóttinni. Við deildum leigubíl með stórskrýtnum Breta sem var að flytja til Indlands. Hann var kominn á eftirlaun og ætlaði að fá sér indverska konu (sem presturinn á eftir að velja fyrir hann) og opna heimagistingu. Heimagistingin átti svo að fjármagna munaðarleysingjahæli sem hann langaði að reka.
Sunnudagurinn fór í rölt um Fort Cochin, þar sem við keyptum heilan túnfisk og nokkrar rækjur af sjómönnum og létum elda þá á veitingastað skammt frá. Við borguðum full mikið fyrir fiskinn, en þegar veitingastaðurinn vild bæta við "Cooking charge" var okkur nóg boðið og við neituðum að borga. Eszter heimtaði líka að ég keypti karlapils (Lungi) í miðju túristasvæðinu, sem ég prúttaði niður um tæpan helming. Það kom sér ágætlega í hitanum en nokkrum tímum seinna (utan túristasvæðisins) sáum við sams konar Lungi á 1/3 af því sem ég hafði borgað. Við komum svo á rútustöðina um fimmleytið og fengum að vita að næstu rútur til Munnar færu kl. 6, 7 og 8:30. Rétt fyrir 6 ætluðum við að taka rútuna, en þá fengum við að vita að hann átti við kl. 6, 7 og 8:30 morguninn eftir. Við vorum frekar spæld, rúma 100km frá gististaðnum okkar, en hoppuðum upp í næstu rútu til Kotamangalam, sem tók okkur hálfa leið. Þegar þangað var komið voru allir mjög hjálpsamir, en enginn vissi hvaða rútu við áttum að taka svo að við hlupum um eins og hauslausar hænur þar til okkur var loksins bent á rétta rútu, til Adimali. Hún tók okkur aftur um hálfa leið, og síðustu 25 kílómetrana (45 mín á kræklóttum vegum) fórum við með leigubíl.
Við vorum 2 nætur í Munnar, eyddum mánudeginum í afslöppun og skoðuðum fossa í nágrenninu. Við fengum far með indverskum hjónum frá Gujarat sem voru hér í brúðkaupsferð, en annars gerðist fátt markvert. Næsta stopp var Thekkady, í 55 km fjarlægð í loftlínu, en 130km á vegum. Þar sem við nenntum ekki að skrölta þessa leið í rútu sömdum við við leigubílstjóra um að sækja okkur á hótelið kl. 7. á þriðjudagsmorguninn.
Við vorum komin til Thekkady um 11-leytið, og komumst að því að við höfðum keyrt framhjá hótelinu okkar klukkutíma áður. Við vorum hundóánægð með að það skyldi auglýsa í Thekkady svo að við hringdum og afpöntuðum, og létum í staðinn draga okkur á mun ódýrara hótel. Þann daginn fórum við svo í reiðtúr á fílsbaki og sáum Khatakali danssýningu.
Á miðvikudag var farið til Alleppy, þar sem við eyddum 2 dögum og hittum sjálfboðaliðana úr Sangam. Seinni daginn tókum við húsbát á leigu, og rúntuðum um skurðina í kringum Alleppy í sólarhring. Það er mjög afslappandi að hafa 3 starfsmenn sem snúast í kringum mann, en við eyddum mestöllum tímanum liggjandi á svölunum að lesa og njóta útsýnsins.
Á föstudaginn lokuðum við hringnum með því að taka lestina til Cochin með sjálfboðaliðunum og fljúga til Mumbai. Sangam-bíllinn sótti okkur svo og kom okkur heim um eittleytið.
--
Það er nátturulega lítið gaman að lesa þetta án þess að sjá myndir, svo ég þarf að drífa í að koma þeim á netið.
Bloggar | Breytt 3.11.2008 kl. 05:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2008 | 06:05
Aftur á Indlandi
Ég hef verið allt of latur að blogga síðustu mánuði. Á næstu dögum ætla ég að reyna að setja inn margar stuttar færslur í staðinn fyrir fáar langar. Við sjáum til hvernig gengur.
--
Ég var í 3 vikur á Íslandi, eftir gott frí í Ungverjalandi. Ég komst aðeins betur inn í hvað ég ætti að vera að vinna við, hitti fólk sem ég hef ekki séð í langan tíma og náði nokkrum vatnapólóæfingum.
Ég komst líka að því að það er ekki allt of sniðugt að keyra morguninn eftir drykkju - svo ég þurfti að nota strætó seinni 2 vikurnar, og þarf væntanlega að taka bílprófið aftur næst þegar ég kem til Íslands. Sem betur fer er ég með indverskt mótorhjólapróf svo það háir mér bara á Íslandi.
Ég skipti farsímanum yfir í Nova, en tókst að týna símanum daginn eftir að númerið varð virkt. Bjössi bróðir lánaði mér gamla símann sinn til að nota á Indlandi en hann týndist eftir 2 símtöl - í rútunni frá flugvellinum til Sangam, svo ég hef verið meira og minna símalaus í rúman mánuð.
Þar með er ég búinn að týna 3 símum á rúmlega 3 mánuðum, sem er nokkuð vel af sér vikið þar sem það liðu rúm 8 ár frá því að ég byrjaði að nota GSM þar til ég týndi einum slíkum.
--
Í Sangam er allt gott að frétta. Eszter er komin með nýja sjálfboðaliða sem eru mun áhugasamari en sumarhópurinn, og yfir vetrartímann eru mun færri og minni atburðir en á Monsúntímabilinu. Hún er því loksins farin að njóta vinnunnar, og hefur meira að segja tíma til að blogga reglulega (á ungversku).
Það er reyndar skrýtið að kalla þetta vetratímabil þar sem hitinn er í kringum 33-34°C þessa dagana, og of heitt til að gera nokkuð af viti.
Síðasta vika hefur verið frekar róleg. Ég hef sjaldan verið jafn slæmur af þotuþreytu og núna, og var í raun heila viku að ná mér - og það og hitinn hafa séð til þess að svo að ég vinn ekki sérstaklega vel þessa dagana.
Við Eszter áttum brúðkaupsafmæli á þriðjudaginn, og hún hélt upp á 28 ára afmælið á föstudaginn, sem var frídagur okkar beggja. Það sem stóð upp úr þann daginn var að mótorhjólið var gert upptækt fyrir að leggja ólöglega (upp við gangstétt en ekki á henni) svo að við þurftum sækja það á löggustöðina og borga 150 rúpíur í sekt og aðrar 150 í mútur því við höfðum ekki neina pappíra um hjólið.
Um kvöldið var svo partí í Sangam með fullt af tertum, gosi og ferskum kókoshnetum. Við gáfum helstu local starfmönnum líka sneiðar, og morguninn eftir þakkaði Aruna (hússtýran) okkur með handabandi og sagði að þetta væri besta kaka sem hún hefði á ævinni fengið.
--
Það hefur verið svolítið vesen að ná í peninga þessa dagana. Debetkortin mín virkuðu ekki í hraðbönkum fyrstu dagana, svo að við höfum verið að nota indverska reikninginn hennar Eszterar, sem tæmist hratt. Rúpían er líka búin að hækka mikið m.t.t. krónu, hún var um 1.5kr þegar Eszter fékk starfið í janúar, var 1.7-2kr í sumar, en var komin upp í 2.44kr í gær þegar hraðbankakortið mitt virkaði loksins.
Á vinnustaðnum hafa menn verið mjög skilningsríkir, og buðu mér að láta millifæra hluta af laununum frá samstarfsaðilum í Bandaríkjunum. Ég ætla að reyna að þiggja það, en þar sem reikningurinn okkar hérna hefur ekki IBAN númer gæti það orðið eitthvað bras. Það er sennilega best að byrja á lítilli upphæð og sjá til hvort hún kemst til skila.
Í næstu viku er Diwali (nokkurs konar hindúajól) svo að allt mun liggja niðri þá daga. Við Eszter förum til Kerala (vesturströndin á suðurodda Indlands) í frí svo að ég ætla að reyna að ná nokkrum myndum þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2008 | 13:54
Kominn heim... í bili
Þá er maður loksins kominn aftur á klakann. Ég lenti á laugardaginn og verð fram til 11. okt.
Ég verð sennilega með gamla símann, 691-1595, þegar ég hef útvegað mér nýtt SIM-kort (þar sem ég týndi símanum daginn sem ég kom til Indlands). Þangað til virkar indverska númerið.
--
Síðasta vika var frekar róleg, fyrir utan flugið frá Indlandi sem var frekar stressandi. Aksturinn á flugvöllinn tók lengri tíma en áætlað var svo að við mættum 15 mínútum áður en check-in lokaði. Flugið var á áætlun sem er óalgengt í Mumbai, en við náðum að tékka okkur inn og komast í gegnum vopnaleit og útlendingaeftirlit á skikkalegum tíma. Þegar við komum til Vínar ætluðum við að taka rútu, en var bent á að við yrðum að panta miða (ólíkt því sem Vínarbúinn Tobi hafði lofað). Á netinu þurfti að panta með 48 tíma fyrirvara, og skrifstofan var lokuð svo að við ákváðum að taka ekki sénsinn á að fá miða um borð í rútunni heldur fara með lest inn í Vín og áfram til Prag.
Miðasjálfsalinn á flugvellinum vildi ekki taka kort eða 2 Evru klinkið mitt, svo við vorum næstum búin að missa af lestinni. Við náðum þó að borga með seðlum og komumst um borð með miða 30 sek áður en hún fór af stað. Það var ekki fyrr en þá sem ég skoðaði klinkið almennilega og sá að 2 Evru myntin var í raun pund.
Þar með hefði stressið átt að vera búið, en lestin sem átti að fara með okkur á aðalbrautarstöðina kom á öðrum brautarpalli en var auglýst svo að við misstum af henni. Þá hoppuðum við upp í leigubíl og náðum lestinni til Prag 3-4 mínútum áður en hún átti að fara af stað.
--
Við eyddum síðan sólahring í Prag með foreldrum mínum (sem voru þar á frímerkjasýningu) og fórum þaðan með lest til Búdapest þar sem allir ættingjar Eszterar voru heimsóttir. Afi hennar er merkilega hress þrátt fyrir konumissinn og sótti okkur á lestarstöðina ásamt pabba Eszterar. Hann er jafnvel að plana mánaðarferð til Indlands í janúar, 87 ára gamall.
Móðuramman er að verða áttræð, en er líka mjög hress. Hún á garð fyrir utan borgina og ræktar þar grænmeti og ávexti, plægir og sáir án hjálpar eins og ekkert sé, þó það verði erfiðara með hverju árinu.
Jarðarförin verður á morgun, en þar sem Eszter þurfti að vera mætt aftur til vinnu í gær fórum við sitt í hvora áttina á laugardaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2008 | 08:23
Skrifstofan loksins tilbúin
Á föstudaginn var skrifstofan loksins tilbúin - bara 4 vikum á eftir áætlun.
Ég notaði tækifærið og keypti 22" skjá, svo að nú er ég loksins með tvo skjái fyrir framan mig, lyklaborð og allar græjur. Ég sparaði reyndar ekki nema rúmar 5000 kr á að kaupa hann hér frekar en heima, en ef ég hefði valið 24" Dell skjá hefði ég sparað næstum 40000kr. Ég hef ekki kynnt mér hvað ég hefði "sparað" mikið á 30" skjá.
Skrifborðið er við glugga svo að ég hef útsýni yfir Mula-Mutha ána sem liggur í gegnum Pune. Það eina sem vantar er kaffivél, en það eru reyndar 3 kaffihús í göngufæri, og 2 kökubúðir í hjólafæri svo að ég kemst af án þess í bili.
--
Þessa dagana er Ganesh hátið í gangi í Pune. Ganesh er guð visku, gæfu og nýs upphafs, og er oftast bleikur, með fílshöfuð og 4 hendur. Ganesh hátíðin felst í því að reist eru tjöld með Ganesh-styttu úti um alla borg þar sem hann er hylltur. Um viku síðar er síðan farið af stað með stytturnar og haldið er í skrúðgöngu niður að á þar sem henni er drekkt.
--
Í Sangam er allt í rugli eins og fyrri daginn. Monsún rigingin virðist loksins vera komin fyir alvöru, 3 mánuðum of seint, svo það flæðir reglulega inn í herbergið hjá okkur. Það verður vonandi lagað fyrir næsta Monsúntímabil.
Fyrir stuttu fór rafmagnið í steik svo að kallað var á rafvirkja til að laga málin. Til að tryggja sér meiri bísness í framtíðinn i víxlaði hann á 2 öryggjum og beið eftir að eittkvað færi úrskeiðis.
Í fyrradag varð honum að ósk sinni þar sem rafmagnsveitan klikkaði eitthvað og spennan varð 100V á einni grein og 300V á þeirri næstu (eða eithvað í þá áttina). Sum ljós kviknuðu ekki á meðan á þessu stóð en önnur loguðu mjög skært. Þetta brenndi yfir slatta af ljósaperum og flúorperu-ballestum og skemmdi útvarp sem við vorum nýbúin að kaupa og slatta af rafmagnstækjum. Ein flúorperan splundraðist svo að glerbrotum rigndi yfir gesti. Það þarf vart að taka það fram að þessi rafvirki verður ekki kallaður til aftur í bráð.
Við erum þó loksins komin með alvöru internet í Sangam, þar sem nýlega var settur upp sendir nær okkur. Þar með lýkur rúmlega árs eyðimerkurgöngu þar sem flestar tölvurnar voru að samnýta 14kbps GSM-módemtengingu sem hékk sjaldnast uppi meira en 10 mínútur í einu.
Núna stendur yfir námskeið á frönsku svo að Eszter hefur 2 skáta frá aðalstöðvunum sér til aðstoðar. Eszter er ánægð að hafa loksins hæft fólk sér við hlið, en er ennþá að vinna 14-15 tíma á dag. Það verður ágætt fyrir hana að fá lokins frí í næstu viku, þó að við verðum á ansi miklu flakki fyrstu 2 dagana (Indland ->Austurríki ->Tékkland ->Ungverjaland).Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2008 | 15:49
7 - 9 - 13
Aldrei að segja aldrei...
Í síðustu færslu sagði ég að við hefðum ekki ennþá upplifað monsún rigningu hérna. Hálftíma seinna fór ég heim. Ég var ekki fyrr búinn að starta mótorhjólinu en að það byrjaði að rigna. Og rigna. Og rigna. Eftir 300 metra var ég orðinn frekar blautur svo að ég stoppaði á kaffihúsi til að bíða eftir að rigningunni slotaði.
Hálftíma seinna gafst ég upp á að bíða og fór af stað í hellidembu, og varð rennandi blautur. Nú eru liðnir 4 tímar og það rignir enn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2008 | 11:29
Mumbai (aftur?) + ferðaplan
Ferðalagið hófst sem sagt á sunnudagsmorgni þegar við vöknuðum eldsnemma um moguninn og tókum strætó að lestarstöðinni. Þaðan var tekin rúta til Mumbai, sem skilaði okkur þangað á um 3 tímum. Þar fengum við okkur ferskar kókóshnetur, smábanana, samosa, djúpsteiktan lauk og fleira góðgæti í morgunmat.
Eftir það rákumst við á Sari-búð til að skoða. Eftir rúman klukkutíma, tvær flöskur af vatni og tvo kaffibolla gengum við út tveimur sari-um ríkari en nokkrum þúsundköllum fátækari. Þaðan var stefnan loksins tekin á hótelið. Við völdum annað hótel en síðast, og þetta skiptið vorum við bæði með passa meðferðis til að forðast leiðindi. Það skipti þó ekki máli þar sem nú aðeins þurfti að skrá minn passa.
Hótelið var vel staðsett og í alla staði til fyrirmyndar. Næstu 2 sólarhringar fóru í minjagripa-, fata- og jólagjafasöfnun úti um alla borg í steikjandi hita, og við skemmtum okkur mjög vel. Við íhuguðum að kaupa bílfarma af antíkhúsgögnum í Mutton street, en hættum við á síðustu stundu.
Heimferðin var sér kapítuli út af fyrir sig. Um þrjúleitið á 3. degi ákváðum við að við værum orðin of þreytt til að gera meira og ákváðum að fara heim. Við tókum leigubíl að næstu lestarstöð, en þegar þangað var komið voru engar rútur þar, og það rifjaðist upp fyrir mér að engar rútur eru á þeirri stöð. Við fórum því beint að leigubílastandinum við lestarstöðina, en vegna þreytu vorum við líka búin að gleyma því að óheiðarlegustu leigubílstjórarnir safnast saman við flugvelli og lestarstöðvar til að svindla á ferðamönnum.
Eftir smá hark við bílstjóra sem vildu 150-200 rúpíur (margfalt taxtaverð) fyrir 20 mínútna skutl var okkur troðið inn í leigubíl og sagt að bíða eftir bílstjóra sem væri tilbúinn að ferja okkur samkvæmt mæli. Það voru sennilega mistök, þar sem hann keyrði okkur í hringi í rúman klukkutíma þar til ég bað hann að hætta því og koma okkur á stöðina. Hann reyndi svo að rukka 210 rúpíur samkvæmt næturálagi, af því að við vorum á annatíma. Við neituðum harðlega þar sem mælirinn sýndi 140 rúpíur - tvöfalt meira en sambærileg ferð 2 dögum áður, og við borguðum á endanum 100.
Við náðum inn í rútu stuttu síðar, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema af því að rúðan við sætið okkar var brotin, og um það leyti sem við keyrðum inn fyrir borgarmörkin í Pune datt stærðar stykki úr rúðunni.
Þegar við komum aftur til Pune um tíuleytið fréttum við að Monsúnrigningin væri loksins komin, þar sem það hafði rignt nær stanslaust öll 3 kvöldin, og það hafði flætt um allar götur og meira að segja inn í herbergið okkar í Sangam. Það hefur ekki rignt síðan svo við höfum komist alveg merkilega þurr í gegnum þetta monsúntímabil.
--
Hér er allt gott að frétta. Íbúðin er loksins orðin tandurhrein, og skrifstofan er alveg að verða næstum því hér um bil tilbúin. Það eru menn að leggja nýjar raflagnir, lýsingu og net í hana í dag, og eftir það ætti ég að geta flutt inn.
Við fljúgum til Vínar 14. sept. og erum að spá í að fara þaðan til Prag, því Eszter vill endilega hitta tengdaforeldrana áður en þeir fara heim að morgni 15. Þaðan förum við svo til Búdapest þar sem við verðum í tæpa viku. 20. september förum við þaðan - Eszter til Indlands að velja nýjan stjóra í Sangam, en ég kem til Íslands í 3 vikur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2008 | 12:20
Punktar
Enn er ég ekki kominn með endanlegt skrifstofupláss. Skrifborðið er loksins til, en það á ennþá eftir að leggja rafmagn og net að því og breyta lýsingunni. Aðstaðan er nokkuð góð: 4Mb nettenging og verið er að setja upp 6 tíma UPS (varaaflgjafa) svo rafmagnsleysi ætti ekki að vera vandamál hér.
Ég vona að þetta verði klárað í næstu viku, en maður veit í raun aldrei hvað gerist á indverskri tímaáætlun...
Síðustu daga höfum við Eszter verið að standsetja íbúðina okkar í Unique Apartments. Ég hef verið að vinna þar síðustu mánuði án vandræða en Eszter hefur minna þol fyrir óhreinindum, svo það þurfti að þrífa allt hátt og lágt, og skrúbba gólfin rækilega. Við erum búin að skila slatta af húsgögnum frá fyrri eigendum til Sangam og í gær voru eldhúsið, baðherbergin og svefnherbergið tekin í gegn, svo að nú þarf bara að þrífa stofuna og ganginn til að íbúðin verði mönnum bjóðandi.
Það hefur gengið stóráfallalaust að keyra mótorhjólið. Ég fékk Learners Licence í síðustu viku og hef notað það talsvert síðan. Aftan á skírteininu stendur að ég verði af hafa bæði leiðbeinanda og stór L á hjólinu til að mega keyra það, svo að ég ákvað að loka það ofan í skúffu og nota íslenska ökuskírteinið (sem er reyndar bara fyrir bíla) í staðinn.
Það reyndist rétt ákvörðun þar sem ég var stoppaður af lögreglunni í reglulegu tékki á sunnudaginn. Löggan hélt því fram að íslenska skírteinið gilti ekki á Indlandi og vildi að ég greiddi 100 rúpíu sekt pappírslaust", eða 300 rúpíur með sektarmiða. Ég var auralaus svo hann gerði skírteinið mitt upptækt á meðan ég fór á hjólinu og sótti pening.
Þegar ég kom aftur var ég harður á því að ökuskírteinið væri alþjóðlegt og að ég myndi ekki borga 100 rúpíu mútur, heldur vildi sektarmiða. Ég gekk svo langt að segja að ég héldi að hann væri að búa til þessa reglu um að þetta skírteini gilti ekki. Þá kom fát á hann og stuttu síðar var mér sleppt úr haldi án þess að þurfa að borga.
Ég býst samt við að taka indverska ökuprófið við fyrsta tækifæri svo að ég losni við svona vesen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2008 | 05:58
Fréttaskammtur vikunnar
Það er allt að gerast þessa dagana. Ég er næstum því kominn með skrifstofuna mína sem átti að vera til fyrir 2-3 vikum. Það þurfti að mála, smíða ný skrifborð, bæta lýsingu, leggja raf- og tölvulagnir og annað smálegt. Enn verið að festa lokahönd á verkið þ.a. ég býst við að komast úr tímabundnu aðstöðunni minni yfir í mitt eigið herbergi í næstu viku (eða þarnæstu).
Jarðarför ömmu Eszterar verður 23. september. Eszter kemst frá 15-20 sept, og kannski fram að jarðarför. 21-24 sept. verða svo starfsmannaviðtöl fyrir nýjan Sangam-stjóra (sem Eszter þarf að vera viðstödd), en umsóknarfresturinn er ekki enn runninn út svo það er ekki víst hvort af þeim verður. Ég býst við að við förum saman til Ungverjalands og að ég skreppi þaðan til Íslands í einhverjar vikur til að sinna vinnunni örlítið betur.
Ég er kominn með mitt eigið farartæki, þar sem einn af nágrönnunum lánaði mér gömlu vespuna sína. Hún er komin til ára sinna, með bilaðan hraðamæli og slaka handbremsu, en virkar ágætlega til að koma mér á milli staða, og sparar mér stórfé í leigubíla.
Í fyrradag fór ég í ökuskólann og tók skriflega ökuprófið á mótorhjól. Umsóknarferlið er allt á maharati, svo ég þurfti að ráða mér umba, sem sá um að teyma mig á rétta staði og greiða úr ýmsum vandamálum, s.s. að ég var ekki með vinnu-visa, ekki með frumrit af leigusamningi, og venjulegi skráningarmaðurinn er ekki hér svo það þarf að múta þessum með 300kr. 2 tímum og 3000 krónum síðar var mér loksins úthlutað sætin nr. 28 í prófasal þar sem rúmlega 50 manns gátu tekið prófið í einu. Prófið samanstóð af 10 spurningum, sem voru álíka erfiðar og þessi hér:
Spurningunum var varpað á skjá, bæði á maharati og ensku, og svo var 10 sekúndna frestur til að ýta á rauðan, gulan eða grænan takka. Um leið og prófinu var lokið var nafni og fjölda réttra svara varpað á skjáinn (engin persónuvernd hér), og þeir sem féllu með minna en 6 rétt voru merktir með rauðu. 9 manns af 41 yfirgáfu salinn en afgangurinn fór inn í næsta herbergi og fengu Learners licenece plastað og tilbúið nokkrum mínútum seinna.
Eftir mánuð get ég svo farið aftur og tekið verklega prófið, en mér skilst að þá þurfi ég bara að aka í nokkra hringi á mótorhjóli. Eftir það fæ ég alvöru skírteini og get farið að hjóla löglega í vinnuna.
iPhone 3G lendir á Indlandi í dag. Það er reyndar engin 3G þjónusta á Indlandi ennþá, þar sem 3G uppboðið verður sennilega ekki fyrr en í desember og það gæti tekið ansi langan tíma að fá 3G dreifikerfið í gang á indverskri tímaáætlun.
Það er því kannski full snemmt að fara að kaupa 3G síma hér, en iPhone er iPhone og skert notagildi hefur aldrei stoppað græjusjúklinga...
Það var reyndar ekkert gefið upp um verð, binditíma, eða hvaða fídusar eru í boði svo fyrr en í dag, og enn er mörgum spurningum svarað með að það verði tilkynnt síðar. Hann er ólæstur (hægt að nota alls staðar) en verðið finnst mér helvíti hátt (31000 INR eru tæpar 60000kr.). Ég ætla samt að bíða aðeins með að panta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.8.2008 | 06:05
Terese Tóth látin
Amma Eszterar lést í síðustu viku, 84 ára gömul, eftir stutt veikindi.
Ég hafði beðið með að skrifa um það þar til ég væri búinn að grafa upp harða diskinn með myndum af henni, en hann virðist ekki hafa lifað af ferðalagið - eða er í samúðarverkfalli.
Við Eszter förum til Ungverjalands í jarðarförina, og husanlega kíki ég við á Íslandi í kjölfarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2008 | 06:40
Mumbai
Á föstudaginn kom upp sú óvenjulega staða að Eszter átti tvo samliggjandi frídaga.
Þessu þurfti auðvitað að fagna svo að við ákváðum að fara til Mumbai (Bombay) í frí. Við pöntuðum lestarmiða með nokkurra daga fyrirvara hjá ferðaskrifstofu hér í Pune, en þeir gátu ekki pantað hótel svo að við fundum Hotel Diplomat á netinu eftir þó nokkra leit, þar sem flest hótelin voru þegar uppbókuð. Þetta virtist vera ágætis hótel í göngufæri frá lestarstöðinni og miðbænum.
Við tókum lestina eftir vinnu á fimmtudag og fundum hótelið eftir smá leit. Þegar þangað var komið þurftum við að framvísa vegabréfum, sem var örlítið vandamál þar sem Eszter hafði ekki tekið sitt með sér. Í fyrstu virtist vera í lagi að faxa upplýsingarnar daginn eftir, en við sögðum að það væri ekki hægt þar sem það var læst inni í peningaskápnum í Sangam, og allir sem höfðu lyklavöld voru farnir úr bænum. Svarið var að ég mætti gista en konan ekki.
Við hringdum í Dörshnu (yfirmann í Sangam), sem sagði að hún hefði skilið eftir lykil svo að þetta væri ekki vandamál. Þegar hótelafgreiðslan heyrði þetta kom annað hljóð í skrokkinn. Það var greinilega bannað að breyta - við vorum búin að segja að þetta væri ekki hægt, og það má ekki bara skipta um skoðun upp úr þurru. Darshna (sem er Indverji, og kann því á svona kauða) öskraði á hann í símann í nokkrar mínútur en það gerði ekkert gagn, eina leiðin til að fá inni um nóttina var að senda þessar upplýsingar strax: fyrst það var svona auðvelt að breyta "ekki hægt" í "á morgun" hlaut að vera hægt að redda því líka á miðnætti.
Eszter hringdi í 2 starfsmenn í viðbót sem tóku mynd af vegabréfinu og sendu í tölvupósti.
Svarið var bara að vegbréfsáritunina vantaði og hana þyrfti líka að senda - það var ekki nóg að fá upplýsingarnar sem vantaði í síma. Þegar það var komið var klukkan orðin eitt og við gátum loksins farið í háttinn.
Restin af ferðinni var mun skárri.
Þess ber að geta að miðbærinn í Mumbai er einn sá glæsilegasti sem ég hef séð. Ef einhver vill sjá alvöru 19. aldar götumynd sem þess virði er að varðveita ætti hann að koma hingað. Kofaskriflin við Laugaveg eru eins og fátækrahverfi í samanburði. Svo vantar alveg kókóshnetusala á Austurvöll sem selja manni ferskar kókóshnetur með röri. Betri svaladrykk er erfitt að finna.
Við eyddum næsta degi í miðbæjarrölt, búðaráp, kaffiþamb og enduðum á miðnæturkvöldverði á indverskum veitingastað. Allt saman mjög afslappandi og þægilegt.
Seinni deginum eyddum við að mestu sitjandi. Við ákváðum að finna King Koil búðina, þar sem okkur vantar góða dýnu og verðin á þeim hér eru mun skárri en heima. Ferðin í búðina tók rúmlega klukkutíma í leigubíl, en þegar þangað var komið stóðu yfir endurbætur, svo þar var ekkert að sjá næstu 4 vikurnar. Við þurftum því að taka leigubíl til baka, en stoppuðum til að skoða markaðina í Mumbai. Þaðan var tekinn þriðji leigubíllinn niður í miðbæ svo að við yrðum ekki of sein í lestina.
Við náðum þó góðu stoppi í kökubúð en síðan tók við 4 tíma lestarferð heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)