Aftur á Indlandi

Ég hef verið allt of latur að blogga síðustu mánuði. Á næstu dögum ætla ég að reyna að setja inn margar stuttar færslur í staðinn fyrir fáar langar. Við sjáum til hvernig gengur.

--

Ég var í 3 vikur á Íslandi, eftir gott frí í Ungverjalandi. Ég komst aðeins betur inn í hvað ég ætti að vera að vinna við, hitti fólk sem ég hef ekki séð í langan tíma og náði nokkrum vatnapólóæfingum.

Ég komst líka að því að það er ekki allt of sniðugt að keyra morguninn eftir drykkju - svo ég þurfti að nota strætó seinni 2 vikurnar, og þarf væntanlega að taka bílprófið aftur næst þegar ég kem til Íslands. Sem betur fer er ég með indverskt mótorhjólapróf svo það háir mér bara á Íslandi.

Ég skipti farsímanum yfir í Nova, en tókst að týna símanum daginn eftir að númerið varð virkt. Bjössi bróðir lánaði mér gamla símann sinn til að nota á Indlandi en hann týndist eftir 2 símtöl - í rútunni frá flugvellinum til Sangam, svo ég hef verið meira og minna símalaus í rúman mánuð.
Þar með er ég búinn að týna 3 símum á rúmlega 3 mánuðum, sem er nokkuð vel af sér vikið þar sem það liðu rúm 8 ár frá því að ég byrjaði að nota GSM þar til ég týndi einum slíkum.

--

Í Sangam er allt gott að frétta. Eszter er komin með nýja sjálfboðaliða sem eru mun áhugasamari en sumarhópurinn, og yfir vetrartímann eru mun færri og minni atburðir en á Monsúntímabilinu. Hún er því loksins farin að njóta vinnunnar, og hefur meira að segja tíma til að blogga reglulega (á ungversku).

Það er reyndar skrýtið að kalla þetta vetratímabil þar sem hitinn er í kringum 33-34°C þessa dagana, og of heitt til að gera nokkuð af viti.

Síðasta vika hefur verið frekar róleg. Ég hef sjaldan verið jafn slæmur af þotuþreytu og núna, og var í raun heila viku að ná mér  - og það og hitinn hafa séð til þess að svo að ég vinn ekki sérstaklega vel þessa dagana.
Við Eszter áttum brúðkaupsafmæli á þriðjudaginn, og hún hélt upp á 28 ára afmælið á föstudaginn, sem var frídagur okkar beggja. Það sem stóð upp úr þann daginn var að mótorhjólið var gert upptækt fyrir að leggja ólöglega (upp við gangstétt en ekki á henni) svo að við þurftum sækja það á löggustöðina og borga 150 rúpíur í sekt og aðrar 150 í mútur því við höfðum ekki neina pappíra um hjólið.
Um kvöldið var svo partí í Sangam með fullt af tertum, gosi og ferskum kókoshnetum. Við gáfum helstu local starfmönnum líka sneiðar, og morguninn eftir þakkaði Aruna (hússtýran) okkur með handabandi og sagði að þetta væri besta kaka sem hún hefði á ævinni fengið.

--

Það hefur verið svolítið vesen að ná í peninga þessa dagana. Debetkortin mín virkuðu ekki í hraðbönkum fyrstu dagana, svo að við höfum verið að nota indverska reikninginn hennar Eszterar, sem tæmist hratt. Rúpían er líka búin að hækka mikið m.t.t. krónu, hún var um 1.5kr þegar Eszter fékk starfið í janúar, var 1.7-2kr í sumar, en var komin upp í 2.44kr í gær þegar hraðbankakortið mitt virkaði loksins.
Á vinnustaðnum hafa menn verið mjög skilningsríkir, og buðu mér að láta millifæra hluta af laununum frá samstarfsaðilum í Bandaríkjunum. Ég ætla að reyna að þiggja það, en þar sem reikningurinn okkar hérna hefur ekki IBAN númer gæti það orðið eitthvað bras. Það er sennilega best að byrja á lítilli upphæð og sjá til hvort hún kemst til skila.

Í næstu viku er Diwali (nokkurs konar hindúajól) svo að allt mun liggja niðri þá daga. Við Eszter  förum til Kerala (vesturströndin á suðurodda Indlands) í frí svo að ég ætla að reyna að ná nokkrum myndum þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

  Einar óheppni.  kv. Eygló

Eygló (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 17:07

2 identicon

Jæja karlinn minn

Er nokkuð að frétta?

mamman (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband