Beðið eftir jólaskapinu

Maður verður víst að senda upplýsingar til tilkynningaskyldunnar reglulega.

Það er ósköp lítið að gerast hér. Í síðustu viku fórum við í leikhús niðri í bæ með sjálfboðaliðunum og fólki sem þau hittu gegnum couchsurfing vefsíðuna, að sjá leikritið "Life on a single bed". Þetta virtist bara vera venjulegur kolruglaður farsi með 2 furðufuglum, vinkonu þeirra og klikkuðum nágranna. Í hléinu var okkur bent á að þetta væri byggt á Seinfeld þáttunum svo að maður var ekki lengi að sjá Jerry, George, Kramer og Elaine skína í gegn þegar nánar var skoðað - þó ég hefði sennilega ekki áttað mig á því sjálfur.

Við Eszter fórum líka á húsgagnasýningu þar sem við rákumst á indverskan antíksala og leirkerasmið sem bauð okkur í heimsókn til sín að skoða heildarsafnið af antíkhúsgögnum. Við kíktum til hans daginn eftir og skoðuðum tugi art nouveau fataskápum og nokkur skrifborð,  en fundum ekkert sem okkur leist á. Hann var sérstaklega stoltur af leirkerasmiðjunni og ofnunum 3 sem hann smíðaði sjálfur. Við enduðum á að láta hanna fyrir okkur teketil eins og við viljum hafa hann, þar sem við erum löngu búin að gefast upp á að finna svoleiðis hér.

Jólin koma á morgun, og Eszter fær 4 frídaga í röð yfir jólin og við ætlum að halda upp á þau með sjálfboðaliðunum og Sangam-starfsfólkinu. Jólaskapið er eitthvað að láta bíða eftir sér, þar sem það eina sem minnir á jólin eru einstaka jólaseríur á stangli og gaurar á gatnamótum að selja ódýrar jólasveinahúfur. Engin jólalög, jólasnjór, jólabakstur eða annað til að koma manni í jólaskapið. Sem er að vissu leyti ágætt, en samt er eins og eitthvað vanti...

Íbúðin verður alltaf betri og betri. Ég er búinn að festa upp króka til að hengja "garðhúsgögnin" okkar upp svo að lítið fari fyrir þeim, það er komið auka borð á hjólum í eldhúsið, og svefnherbergið er í fínu standi. Það vantar ennþá stóran spegil, og eldhúsborðið og nokkrir fletir þurfa að fá aðra umferð af málningu - en þetta er næstum komið. Ég flutti hjólaborðið frá Sangam aftan á mótorhjólinu, eins og Indverjarnir hefðu gert - Eszter fannst það bráðfyndið og var sársvekkt að hafa ekki náð mynd af því. Ég á líka ennþá eftir að taka myndir af íbúðinni eftir að hún var máluð, en stefni að því að gera það um jólin.


Fréttir

Eszter er loksins komin frá London, þar sem hún var í starfsmannaviku í Pax Lodge, og skrapp í heimsókn til Helga, Unu og Iðunnar. Hún kom heim með alls konar dót frá Íslandi, þar á meðal súkkulaði-jóladagatal og jólasmákökur. Eins og við var að búast bráðnaði allt súkkulaðið í dagatalinu, en sörurnar virðasthafa sloppið.

Á meðan var ég að stússa í íbúðinni. Þó að málararnir hafi staðið sig ágætlega þurfti að bletta á nokkrum stöðum og endurbæta aðeins. Bleiki veggurinn okkar er orðinn jafn rauður og hurðirnar, og ég pússaði upp og málaði tvö borð sem litu vægast sagt hræðilega út fyrir mánuði síðan. Vaskurinn á baðinu fékk líka yfirhalningu eftir að ég braut óvart annan vinkilinn sem hélt honum uppi. Ég notaði tækifærið og málaði vegginn, skrapaði gömlu brúnu málninguna af öllu og hækkaði hann upp um 10cm svo að maður þarf ekki lengur að beygja sig niður til að þvo sér um hendurnar. Það var ekki bara gert til að fá að bora aðeins, hvað sem Una segir.

Mótorhjólið þurfti líka smá lagfæringar. Daginn áður en Eszter fór til London fengum við mengunarskírteini fyrir það, svo löggan getur hætt að sekta okkur fyrir að hafa það ekki. Ég fann loksins stað sem selur varahluti þ.a. ég eyddi hátt í þúsundkalli (340Rs) í nýjan hraðamæli, nýtt afturljós og ýmis konar smotterí. Loksins get ég séð hvað það er að eyða miklu - á fyrstu 2 lítrunum komst ég um 100km, sem er að ég held ekkert svo slæmt fyrir 20-30 ára mótorhjól með tvígengisvél og 2% CO útblástur. Rafkerfið er ennþá í einhverju rugli, flautan er léleg og fótbremsan bogin eftir að ég keyrði á kantstein, en annars er það í ágætis standi.

Við ætlum að senda jólakort, en þar sem við komumst varla í að skrifa þau fyrr en um helgina er líklegt að þau verði u.þ.b. mánuði of sein.


Blaðamenn mbl.is væru lélegir hryðjuverkamenn

Mynd af Taj Mahal h�telinu

Merkilegt að með einmitt þessari frétt skuli ekki vera mynd af Taj Mahal hótelinu heldur Taj Mahal sjálfu. Álíka og að ruglast á hvernum Geysi og hótelinu Geysi. Við hótelið sést sjórinn sem þeir sigldu á neðst á myndinni, en það er ekkert svoleiðis við Taj Mahal.

Ef þessir hryðjuverkamenn væru jafn klárir á tölvur og blaðamenn, hefðu þeir lent um 1000km frá réttum áfangastað.


mbl.is Auðveldar Google Earth hryðjuverk?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átökum að ljúka í Mumbai

Það er allt að róast hér á Indlandi. Átökin hófust fyrir rúmum 2 sólarhringum og lögreglan er að ná valdi á flestum stöðum. Göturnar voru mun fámennari en venjulega, en annars hefur þetta ekki mikil áhrif hér.

Eszter flýgur til London eftir um það bil sólarhring, og er frekar hrædd við að fara í gegnum flugvöllinn í Mumbai. Þetta er náttúrlega hrikalegt fyrir ferðamannaiðnaðinn í heild, og Sangam fékk einhverjar afpantanir í gær. Ef ástandið versnar er hætta á að allir erlendir starfsmenn verði sendir  í öruggt skjól úr landi - en það er ólíklegt eins og staðan er í dag.

 --

Eszter verður í London 10 daga á starfsmannaviku með starfsfólki af öllum hinum alþjóðamiðstöðvunum, og skreppur í heimsókn til Helga og Unu eftir það. Á meðan verð ég líklega aleinn í Sangam.

Hún á 2 frídaga áður en hún fer og við ætluðum að nota þá til að gera íbúðina klára eftir málningarvinnuna. Aðal málið er að þrífa, en við ætlum líka að mála bleika vegginn okkar í sama lit og hurðirnar. Í dag voru píparar að laga lagnir í húsinu svo að við vorum vatnslaus og gátum því lítið þrifið. Í staðinn fórum við og keyptum dýnu í íbúðina, sem verður afhent í næstu viku.


Allt að verða vitlaust hérna

Það var hryðjuverkaárás í Mumbai í nótt. Mumbai er næsta stórborg við okkur, en hún er í um 150km fjarlægð svo að við erum ekki beint í hættu. Rúmlega hundrað eru látnir samkvæmt The Times of India, þar af 6 útlendingar. 

Smáatriðin eru ekki á hreinu, en í morgun var mér sagt að 10 sprengjur hafi verið sprengdar á fjölförnum stöðum, og það sé kviknað i Taj Mahal hótelinu (sem er það stærsta og flottasta í miðbænum) eftir innrás hryðjuverkahóps múslima. Times of India segir þá hafa verið vopnaða vélbyssum og handsprengjum - á 7 stöðum, svo ég veit í raun ekkert hvað er í gangi.
Múslimarnir hér í Pune eru samt algörir englar, kurteisir og strangheiðarlegir - en það eru öfgar alls staðar svo maður veit ekkert hvað gerist næst.

Fráfarandi aðstoðarmaður Eszterar er reyndar í Mumbai núna, en sem betur fer slapp hún við ósköpin. Við buðumst til að láta sækja hana og hún ætlar að sjá til hvort hún kemur hingað eða heldur ferðalaginu sínu áfram.

Hér er ítarleg frétt frá The Times of India.


mbl.is 9 handteknir vegna hryðjuverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðin máluð

Íbúðin var loksins kláruð í gær. Nú eru loft og veggir skjannahvít og slétt, og hurðirnar blóðrauðar og glansandi. Við vildum hafa einn vegginn í sama lit og hurðirnar, en í staðinn fengum við ljósrauðan/rauðbleikan lit. Við stefnum að því að mála þann vegg sjálf í réttum lit bráðlega. Myndir koma væntanlega þegar við erum búin að þrífa og setja húsgögnin á sinn stað..

Málararnir eyddu góðum tíma í undirvinnu, svo að allir veggir eru nú spegilsléttir. Þeir stóðu sig bara  mjög vel, og tóku líka ágætlega til eftir sig. Þó eru víða rákir á hurðunum og ýmis smáatriði eins og að bletta handföng og annað gleymdist víst, og það eru málningarslettur víða á gólfum . Það versta var að þeir tóku ísskápinn úr sambandi svo að allt sem var í frystinum myglaði.

--

Í fyrsta skipti síðan í Eszter kom hingað er ekkert sem "þarf að gera" á frídögunum. Í síðasta helgarfríi voru nokkur erindi sem þurfti að sinna en í heildina höfum við Eszter haft það mjög náðugt, og fórum sennilega 7-8 sinnum á veitingastaði eða kaffihús um helgina.

Á sunnudaginn fórum við á mótorhjólinu til Alandi, sem er heilagt þorp í um hálftíma akstur frá Sangam. Þann daginn var einhvers konar helgihald í gangi, og tugþúsundir komu þangað til að biðjast fyrir. Við sluppum lifandi úr kösinni, en sáum mikið eftir því að eiga ekki myndavélarsíma til að ná myndum af mannhafinu.

Í vetur verður sundlaugin of köld til að synda í, svo að við höfum notað hana mikið síðustu daga á meðan hún er ennþá næstum því volg. Til að halda á okkur hita ofan í lauginni spilum við badminton, eða bað-minton eins og við köllum það.

--

Það virðist enginn endi vera á símavandræðum mínum. Ég ákvað að kaupa einfaldasta símann sem var í boði og endaði á að kaupa Samsung SGH-B130T. Þetta er fyrsti "ekki-Nokia/Sony-Ericsson" síminn minn, og mér líst bara ágætlega á hann. Hann er með innbyggðu vasaljósi sem kemur sér mjög vel, en laus við allt aukadót eins og myndavél, útvarp, mp3 spilara, bluetooth og hvað þetta heitir nú allt saman.
Ég hef ekki týnt honum ennþá, en nú finn ég ekki hleðslutækið þó að ég sé umkringdur af Nokia/Sony-Ericsson hleðslutækjum. Sem betur fer var einn af vinnufélögunum með svipaðan síma og hleðslutæki sem passar, svo það sleppur í bili...


Farið að kólna...

Það er aðeins farið að kólna hér á Indlandi, sérstaklega á kvöldin og næturnar. Dúnsængin er ekki nauðsynleg ennþá, en við erum farin að þurfa teppi á næturnar í stað þess að sofa bara með þunnt lak yfir okkur. Ég þarf kannski að fara að grafa upp eitthvað af langerma flíkum bráðum.

--

Íbúðin okkar er öll að koma til. Hún hefur verið netlaus mánuðum saman, en í gær kom loksins þjónustumaður að kíkja á tenginguna. Ég hef alltaf haldið því fram að símalínan okkar sé slitin, og eftir hálftíma mælingar endaði hann á að skipta um kapal. Við höfum því vonandi net þangað til 6 mánaða samningurinn okkar rennur út í næstu viku.
Í gær kom líka málari sem byrjaði að mála alla íbúðina. Það var kominn tími á málningarvinnu þar sem allar hurðir voru dökkbrúnar og veggirnir hlandgulir – þetta var eins og að búa í skítugum nærbuxum.
Helsti gallinn við málninguna hér er þó efnisvalið. Í íbúðinni hefur bara verið hvíttað, en það segir sig sjálft að vatnsþynnt duft sem skolast af með vatni er ekki besti kosturinn í landi monsúnrigninga. Í þetta skiptið verður þó málað með alvöru málningu.
Smekkur Indverja er ólíkur okkar, sem kom skýrt fram þegar leigusalinn og málarinn stungu báðir upp á að mála alla veggi með “baby blush” lit, sem er eins og nafnið gefur til kynna skærbleikur.
Stefnt er að því að málningarvinnunni ljúki í kringum 25. nóvember - sama dag og netáskriftin okkar rennur út.

Við búum í Sangam á meðan, sem er ágætt fyrir utan það að þráðlausa netið er frekar slappt. Það virkar ef við sitjum beint fyrir neðan routerinn, en dettur út ef við förum lengra en 2 metra í burtu. Það þarf kannski að kíkja eitthvað á það...


Rólegheit

Það er voða lítið að frétta þessa dagana. Ég keypti nýjan síma af einföldustu gerð (ef ske kynni að hann týnist), en símafyrirtækið er ekki enn búið að virkja símkortið eins og þeir ætluðu að gera fyrir 2 vikum.

Eszter er í 3 daga fríi þessa dagana svo að við höfum verið að taka því rólega. Í gær sváfum við út, og fórum svo út að sinna hinu og þessu. Eftir morgunmat fór Eszter og skráði sig í yoga. Við fengum okkur svo kaffi og íhuguðum að kaupa indverskan krakka (þ.e.  styrkja einn slíkan til náms hérna), en þau plön röskuðust þar sem hjólinu okkar var stolið.

Það kom í ljós að við höfðum lagt á "hættulegum stað" (framan við tröppur úti á enda á mótorhjólastæði) og löggan gerði það upptækt, eins og fyrir 3 vikum. Í þetta skiptið töldum við hjólinu hafa verið lagt eðlilega, og okkur grunar að þetta sé bara fjáröflun lögreglunnar sem virðist nota hvert tækifæri til að gera hjól útlendinga upptæk. 15 mínútum og 250 rúpíum seinna fengum við hjólið þó aftur. Eftirmiðdagurinn svo fór í pípulagnir og garðyrkju í íbúðinni okkar.

--

Leigusalinn ætlar að láta mála alla íbúðina, og mætti með málarann í dag. Við höfðum vonast til að hann myndi byrja á þriðjudaginn, en gengið hans getur ekki byrjað fyrr en á laugardaginn. Við höfum dundað við það að fjarlægja tugi af skrúfum og nöglum svo að allir veggir líti sem best út þegar þeir eru búnir, og vonandi verður allt klárt fyrir mánaðarmót.

Eszter er að læra á mótorhjólið, og er næstum því tilbúin að fara að keyra í umferð. Að örðru leyti hefur lítið verið gert í dag, og sennilega verður lítið gert á morgun líka.


Myndir frá Kerala

Kathakali

Myndir frá Kerala eru komnar á netið.


Bankablús

No ATM a.t.m.

Bankavandræðin heima hafa ekki mikil áhrif hér á Indlandi. Rúpían hefu falllið eitthvað gagnvart öðrum gjaldmiðlum svo að gengið á rúpíunni hefur "bara" hækkað úr 1.6kr þegar Eszter fékk starfið í janúar, upp í 2.5 kr. eða svo síðasta mánuðinn (var um 2 í sumar en virðist hafa hækkaði í 2.6 í gær). Ég þarf að borga skrifstofuna mánaðarlega, svo að ég þarf reglulega að nota hraðbankana.

Ég get ekki lengur tekið út 10000 rúpíur í einu eins og hægt var í sumar, og stundum virka kortin bara ekki, eins og myndin sýnir. 

Gaman að þessu...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband