7.3.2009 | 10:14
Allt of heitt
Það er allt of heitt til að skrifa nokkuð af viti þessa dagana.
Við höfum verið í basli með vegabréfsáritunina. Hún rann út hjá okkur í lok janúar svo að við sóttum um framlengingu. Við megum ekki fara úr landi fyrr en umsóknarferlinu er lokið (hvort sem okkur verður veitt framlenging eða vísað úr landi). Helsti gallinn er hvað opinberir starfsmenn eru latir og vanhæfir. Við fengum tvo slíka í heimsókn fyrir tæpum mánuði. Sá fyrri kom og skoðaði íbúðina okkar, og spurði okkur sömu 5 spurninganna a.m.k. fimm sinnum. Sá seinni kom í vinnuna hjá Eszter til að vera viss um að hún væri í alvöru starfi, og spurði starfsfólk spjörunum úr.
Síðan leið og beið, og þegar við hringdum var okkur sagt að umsóknirnar væru komnar til Mumbai í lokavinnslu. Ég fór svo í síðustu viku að athuga stöðuna, en komst að því að hvorugur þessara gaura hafðui skilað inn skýrslum. Eszter hringdi í símanúmer sem við grófum upp og fékk annað símanúmer til að hringja í. 3 símtölum seinna náði hún í einhvern með viti, og á endanum kom annar gaur og fór yfir pappírana hennar í gær. Hann var hvorki læs né skrifandi á ensku (þeir nota Sanskrít letur hérna) og vildi 500Rs ($10) í mútur, en virtist þó vita nokkurn veginn hvað hann var að gera. Hann ætlaði að koma aftur í dag til að fara yfir mína pappíra og senda þetta svo til Mumbai á mánudaginn, en miðað við hraðann hérna kemur hann sennilega að skoða mína pappíra á miðvikudaginn og sendir þetta svo um páskana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2009 | 06:58
Deep Griha
Síðasta sumar vann ég við eldhúsborðið í Unique apartments, en það virkaði ekki sérlega vel svo að ég fór að leita að skrifstofu. Bill, eiginmaður fyrrverandi dagskrárstjórans í Sangam, benti mér á að vinur þeirra, Deba, er með skrifstofu í "miðbænum", og á endanum fékk ég að leigja skrifborð þar.
Það virkaði ágætlega til að byrja með, en það er ekkert sérstaklega gaman að vera "utanaðkomandi" á indverskum vinnustað. Deba er mjög fínn, en hann var hér um bil sá eini sem hægt var að tala við lengur en 2 mínútur um nokkurn skapaðan hlut. Hann er mikið erlendis þ.a. þetta var í raun eins og að vera einn í heiminum.
Ég fór að líta í kringum mig eftir betri stað, og Deep Griha er góðgerðarstofnun sem kom sterklega til greina. Internetið er ekki alveg eins hratt og á gamla staðnum, og vararafmagnið (UPS-inn) endist ekki jafn lengi, en hingað til hefur það ekki valdið óþægindum. Ef það gerist get ég keypt lítinn UPS fyrir mig á nokkra þúsundkalla. Þeir bjóða upp á chai og hádegismat, og það eru alltaf sjálfboðaliðar hérna sem er hægt að spjalla við í matarhléum.
Það skaðar ekki heldur að leigan er næstum helmingi lægri, og rennur óskipt til góðs málefnis.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2009 | 11:09
Afi Tóth kominn heim
Á föstudaginn fórum við Eszter til Mumbai til að koma afanum heim til Budapest. Af öryggisástæðum má enginn fara inn í flugstöðvarbyggingar á Indlandi nema hafa farseðil, svo hann þurfti að tékka sig inn sjálfur. Hann átti pantað beint flug frá Mumbai til Vínar, og við vorum búin að ákveða að sýna honum Mumbai um daginn. Síðan ætluðum við að fara með hann á hótel nálægt flugvellinum þar sem hann gæti lagt sig, borða góðan kvöldmat og fara svo á flugvöllinn um miðnætti svo að hann hefði nógan tíma til að tékka sig inn.
3 dögum fyrir brottför fengum við tilkynningu um flugið hafi verið fellt niður, og hann ætti að fljúga til Delhi klukkan 8 um kvöldið, og skipta þar um flugvél. Ferðaskrifstofan gaf engar upplýsingar í póstinum, og svaraði ekki spurningum frá okkur með öðru en því að til að fá aðstoð væri best að biðja um hjólastól fyrir hann. Þetta fannst okkur ekki sæmandi þar sem hann hafði keypt "No problem" viðbótarþjónustu - og við flokkum það sem "problem" að senda 85 ára gamalmenni sem talar ekkert nema ungversku eitt í millilendingu á indverskum flugvelli.
Þetta truflaði planið okkar svolítið, en við létum það ekki koma að sök. Við prentuðum spjöld sem á stóð "I'm going to Vienna via Delhi" og "I need a wheelchair" til að hengja um hálsinn á honum, og tókum rútu til Mumbai um morguninn. Eszter fór svo með hann á helstu túristastaðina í Mumbai og við tókum leigubíl á flugvöllinn um fjögurleytið. Umferðin var brjáluð svo að það tók 2 tíma að komast á flugvöllinn. Klukkan 6 vorum við semsagt komin á alþjóðaflugvöllinn, en komumst að því að flugið var frá innanlandsflugvellinum, svo að við þurftum að fara þangað í flýti. Við hlupum inn í rickshaw sem sagði að 15 mínútna skutl kostaði 350 rúpíur (meira en 2 tímar í leigubíl), en við höfðum ekki tíma til að rífast við hann. Hann var samt vel sáttur við 100 rúpíur þegar við vorum komin á áfangastað, einum og hálfum tíma fyrir brottför.
Á innanlandsflugvellinum fékk Eszter að fara með hann að þjónustuborðinu þar sem hún útskýrði stöðuna. Það kom í ljós að fluginu hafði seinkað um nokkra klukkutíma, svo að hann myndi að öllum líkindum missa af tengifluginu. Sem betur fer var fólk með viti á flugvellinum svo að hann var settur á standby í flugi sem átti að fara í loftið klukkan 6. Hann fékk líka hjólastól, en í stað þess að setjast skellti hann töskunum sínum á hann og ætlaði að ýta þeim þannig. Eszter benti honum á að fólk myndi ekki trúa því að hann þyrft aðstoð, svo hann fékk sér sæti. Síðan var Eszter vísað út og við biðum fyrir utan í rúman klukkutíma eftir staðfestingu á að það væri pláss fyrir hann um borð í fyrra fluginu, sem fór loksins í loftið um hálfníu.
Við fréttum daginn eftir að hann hefði komist alla leið, en þar sem hann fann ekki flugmiðann sinn í Delhi hefði hann eflaust orðið strandaglópur þar ef hann hefði ekki haft "I'm going to Vienna via Delhi" miðann um hálsinn og fengið hjálp frá öðrum farþegum sem voru leið til Vínar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2009 | 11:37
Goa
Í þarsíðustu viku skelltum við okkur með afann í helgarfrí til Goa. Rétt áður en við lögðum af stað í 8 tíma næturrútu fengum við þær upplýsingar að hann sé ótryggður utan Evrópu, og því þyrfti að kippa því í liðinn.
Ég fór með hann á mótorhjólinu í banka sem sér um tryggingar, en eftir hálftíma maus neituðu þeir að tryggja eldri en 65 ára, en eins og alltaf tóku þeir niður símanúmer og lofuðu að hringja innan tveggja sólarhringa. Þegar við vorum að fara að leggja af stað til baka benti afinn á að hjálminn vantaði , svo að ég stökk upp á næstu hæð að sækja hann. Ég var víst að flýta mér einum of mikið á leiðinni út, þar sem ég gerði ráð fyrir að glerhurðin opnaðist í báðar áttir, þó það stæði skýrum stöfum "Pull" á henni. Ég ýtti duglega á hana - og hún opnaðist vissulega, en ekki eins og ætlað var, heldur brotnaði í þrennt og efsti hlutinn lenti á hausnum á mér...
Ég fékk smá kúlu á höfðið, en það kom ekki mikið að sök.
Í Goa var farið á risa-flóamarkað í Anjuna og síðan á ströndina við Arambol, þar sem við gistum í strákofum. Í fyrstu gekk allt glimrandi vel, afinn mjög ánægður með sjóinn og sólina, og maturinn var veiddur samdægurs. Hann lifnaði allur við og fór úr því að vera nær eingöngu áhorfandi í að segja Eszter æskusögur úr sveitinni. Ég fékk að vera ber að ofan á almannafæri í fyrsta skipti síðan við fluttum hingað, og tókst að sólbrenna illilega.
Seinni daginn gekk ekki alveg jafn vel, og við fengum öll snert af matareitrun af gömlum og/eða illa elduðum sjávarréttum. Afinn var með uppköst og niðurgang allan daginn, en við Eszter sluppum með magaverk. Við komum honum þó heim aftur án meiriháttar vandræða.
Hann fer heim aftur á föstudaginn, eftir 5 vikur á Indlandi...
Myndir af ævintýrum hans á Indlandi eru komnar á Picasa.
Í öðrum fréttum er að ég var að flytja í nýja skrifstofu í Deep Griha, sem virðist ganga ágætlega - ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2009 | 15:19
Myndir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:48
Fréttaskammtur
Það var frekar mikið að gera í síðustu viku. Vegabréfsvandræðum Eszterar lauk loksins um síðustu helgi. Ungverski ræðismaðurinn í Mumbai flutti vegabréfið frá Delhi til Mumbai, svo að við fórum þangað að sækja það á laugardaginn í síðustu viku. Í Mumbai keyptum við líka fataslár fyrir fötin okkar og skoðuðum loksins Taj Mahal hótelið sem var aðalvettvangur hryðjuverkaárásanna í nóvember, en vorum komin heim um kvöldið.
Það mátti ekki seinna vera, þar sem vegabréfsáritunin okkar rennur út í þessari viku. Það var næstum því súrrealísk reynsla að sækja um framlengingu. Á mánudaginn þurftum við að fara á FRO (Foreigner Registration Office) en á leiðinni þangað sprakk á mótorhjólinu. Ég sendi Eszter áfram á rickshaw á meðan ég lét gera við dekkkið. Hálftíma seinna var ég kominn á FRO, en þar var okkur bent á að framlengingar væru meðhöndlaðar á öðrum stað í bænum.
Þar var biðröð út úr dyrum þegar við komum, en eftir korter í þeirri röð var okkur bent á að hún væri bara fyrir Írani og við mættum fara beint inn. Við komum inn í stórt herbergi með fullt af skrifborðum, og biðraðir fyrir framan flestar þeirra. Okkur var bent á lengstu biðröðina, en eftir korter í þeirri röð komumst við að því að þetta skrifborð var bara fyrir stúdenta-visa og við áttum að fara á skrifborðið á bakvið þetta.
Þar fengum við loksins eitt eintak af umsókn um framlengingu (sem við þurftum að ljósrita sjálf) og máttum skrifa niður af blaði allar upplýsingar um þau gögn sem við þurftum að framvísa. Eitt af því var "Indeminty bond" þar sem Indverji þurfti að taka á sig ábyrgð á okkur, og allan kostnað við að koma okkur úr landi ef við geispum golunni hér á landi.
Svoleiðis var útbúið og undirritað af Darshönu, næsta yfirmanni Eszterar. Á föstudaginn var allt klár fyrir næstu umferð, en þar sem þetta "Indeminty bond" var ekki vottað af lögbókanda þurftum við aftur frá að hverfa.
Á laugardaginn héldum við að allt væri á hreinu, en ennþá vantaði ljósrit af pappírum Darshönu til að sanna að hún væri Indverji. Ég fór og sótti þá á meðan Eszter skoðaði búðir í nágrenninu. Að lokum var allt komið svo að umsóknirnar gengu fram og til baka í herberginu í smá stund að safna stimplum og undirskriftum, en að lokum tókst þetta svo að við erum lögleg á Indlandi í bili, a.m.k. þangað til umsóknunum okkar verður hafnað.
--
Við ákváðum líka að halda innflutningspartí á fimmtudaginn. Sunnudagurinn fyrir það fór því í að þrífa og hengja upp myndir, spegil, snaga og fataslár og annað smálegt.
Við höfðum pantað líka svefnsófa frá Fabindia sem skilaði sér seint og illa vegna verkfalla bensínafgreiðslumanna, vörubílstjóra og af öðrum ástæðum, en kom loksins daginn fyrir partíið.
Allt gekk þó upp og úr varð ágætis partí, þrátt fyrir allt stressið í kringum vegabréfin. Ég hafði meira að segja tíma til að taka myndir af íbúðinni, og á bara eftir að setja þær inn á Picasa.
--
Afi Eszterar hefur haft það ágætt. Það er hópur af nýsjálenskum og áströlskum stelpum hérna sem hefur nánast ættleitt hann, og hann fór með þeim í fjöldann allan af ferðum um Pune og nágrenni. Þær fara heim á næstu dögum, en við Eszter förum með hann í langa helgarferð til Goa seinna í vikunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2009 | 12:04
Hláturjóga og fleira
í gærkvöldi komu jógakennarar í Sangam. Þetta var ekki venjulegt jóga, heldur hláturjóga, og vakti mikla lukku eins og venjulega.
Hér eru svo leiðbeiningar fyrir þá sem þurfa að nota asísk klósett.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2009 | 11:54
Fréttir af afa Tóth
-- Skrifað í gær. Birtist ekki einhverra hluta vegna --
Þótt ótrúlegt megi virðast er afi Eszterar mjög sprækur og virðist ekki þjást af "menningarsjokki" eins og flestir yfir sextugt sem komið hafa til Sangam virðast gera. Hann hoppar inn í rickshaw eins og ekkert sé eðlilegra og það virðist fátt geta komið honum úr jafnvægi
Hann var líka merkilega fljótur að ná sér af ferðaþreytunni - eyddi mestöllum sunnudeginum í að jafna sig eftir flugið, og svaf frameftir í gær, en í morgun var hann vaknaður og búinn að klæða sig áður en við Eszter fórum á fætur. Við þrímenntum síðan á mótorhjólinu yfir í Sangam, án nokkurra vandræða.
Í gær átti Eszter frídag, svo að við fórum með hann í miðbæinn í ýmsar útréttingar. Hann var hinn sprækasti, en frekar hægfara. Við keyptum kíló af jarðarberjum og helling af grænmeti, dót í íbúðina og ýmislegt fleira. András hikaði oftast við að fara inn í búðirnar með okkur, en virtist hafa gaman að ósköpunum. Á endanum fórum við í hádegismat á uppáhaldsveitingastað Eszterar.
Um kvöldið elduðu þau Eszter mat fyrir okkur á meðan ég vann (sennilega um 5 skiptið sem við eldum síðan við fluttum) og við borðuðum öll saman úti á svölum.
Í dag erum við Eszter hins vegar bæði að vinna svo að hann var skilinn eftir í reiðileysi í Sangam.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2009 | 08:31
Afi Tóth mættur
Afi Eszterar lenti á Indlandi um miðnætti í nótt. Það var smá vesen að koma honum frá flugvellinum, þar sem bílstjórinn beið á vitlausum Terminal. András talar ekki orð í öðrum málum en ungversku, en var dreginn inn á leigubílastöð á flugvellinum þar sem hann gat hringt í okkur. Eftir þó nokkuð stapp við leigubílstjórana, sem voru búnir að semja um rúmlega tvöfalt taxtaverð fyrir að keyra hann þessa 3-4tíma leið til Pune, tókst okkur að fá upp úr þeim hvar þeir voru svo að bílstjórinn okkar gat sótt hann.
Hann var svo kominn hingað rétt eftir hálf fimm, og kominn á fætur rétt um tíuleytið, þrátt fyrir að hafa verið á ferðalagi í um sólarhring.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.12.2008 | 07:20
Jólin búin...
Jólin hérna voru... öðruvísi. Eszter fékk frí frá aðfangadegi fram á laugardag, svo að við höfðum óvenjulega mikinn tíma saman yfir jólin.
Á aðfangadagskvöld fórum við í partí hjá nokkrum Indverjum sem sjálfboðaliðarnir þekktu. Við höfðum aldrei hitt þá áður, en þeir voru mjög fínir og kvöldið var vel heppnað. Sjálfboðaliðarnir höfðu verið skipaðir í það að elda jólamatinn, en einhvern vegin tókst þeim að breyta planinu í að við myndum baka okkar eigin pitsur. Strákarnir keyptu 35 pitsubotna fyrir innan við 10 manns svo að það var meira en nóg til. Ég gaf Eszter myndavélarsíma, en hún er hrædd við að nota svona dýrar græjur svo að hún er enn með gamla símann.
Á jóladag var svo haldið upp á jólin í Sangam. Flestir elduðu sinn eigin rétt og svo var öllu blandað samam. Við Eszter eyddum stórum hluta af aðfangadeginumog jóladegi í að þræða búðir í leit að hráefni í ungverska köku, en á endanum bjó hún til köku úr pönnukökum. Um kvöldið var svo áætlað að horfa á jólamyndir með sjálfboðaliðunum "áður en jólin kláruðust" hjá þeim, því það eru ekki allir sem hafa 13 daga jól.
Næstu 2 dagar fór svo í að leita að dóti í íbúðina. Við létum framkalla rúmlega 50 myndir af vinum og ættingjum til að setja upp á vegg, og erum búin að kaupa og setja upp innrammaða mynd af Reykjavík, bronsgrímur frá Hindustan, Búdda-króka, plexiglerhlíf við baðvaskinn og fleira smálegt. Í öllum hamaganginum láðist að taka myndir af herlegheitunum, en það er alveg að koma...
Við eyddum líka löngum tíma í að finna skrifstofur flutningafyrirtækja sem gæru sótt nýja vegabréfið hennar Eszterar frá sendiráðinu í Delhi og sent til okkar, en á endanum bentu þau öll hvert á annað með því að segja að eitt af hinum fyrirtækjunum væri það eina sem gerði svoleiðis. Við leystum vandamálið með því að hringja í eina Íslendinginn sem ég þekki persónulega á Indlandi og báðum hann að redda málunum. Sem betur fer vinnur hann í göngufæri við sendiráðið svo að það er lítið mál.
Áramótin verða svo haldin í Sanskruti, með hópi frá nýja-Sjálandi og Ásralíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)