Fréttaskammtur vikunnar

Það er allt að gerast þessa dagana. Ég er „næstum því“ kominn með skrifstofuna mína sem átti að vera til fyrir 2-3 vikum. Það þurfti að mála, smíða ný skrifborð, bæta lýsingu, leggja raf- og tölvulagnir og annað smálegt. Enn verið að festa lokahönd á verkið þ.a. ég býst við að komast úr tímabundnu aðstöðunni minni yfir í mitt eigið herbergi í næstu viku (eða þarnæstu).

Jarðarför ömmu Eszterar verður 23. september. Eszter kemst frá 15-20 sept, og kannski fram að jarðarför. 21-24 sept. verða svo starfsmannaviðtöl fyrir nýjan Sangam-stjóra (sem Eszter þarf að vera viðstödd), en umsóknarfresturinn er ekki enn runninn út svo það er ekki víst hvort af þeim verður. Ég býst við að við förum saman til Ungverjalands og að ég skreppi þaðan til Íslands í einhverjar vikur til að sinna vinnunni örlítið betur.

Ég er kominn með mitt eigið farartæki, þar sem einn af nágrönnunum lánaði mér gömlu vespuna sína. Hún er komin til ára sinna, með bilaðan hraðamæli og slaka handbremsu, en virkar ágætlega til að koma mér á milli staða, og sparar mér stórfé í „leigubíla“.
Í fyrradag fór ég í ökuskólann og tók skriflega ökuprófið á mótorhjól. Umsóknarferlið er allt á maharati, svo ég þurfti að ráða mér umba, sem sá um að teyma mig á rétta staði og greiða úr ýmsum vandamálum, s.s. að ég var ekki með vinnu-visa, ekki með frumrit af leigusamningi, og venjulegi skráningarmaðurinn er ekki hér svo það þarf að múta þessum með 300kr. 2 tímum og 3000 krónum síðar var mér loksins úthlutað sætin nr. 28 í prófasal þar sem rúmlega 50 manns gátu tekið prófið í einu.  Prófið samanstóð af 10 spurningum, sem voru álíka erfiðar og þessi hér:

pedestrian_647172.png

Spurningunum var varpað á skjá, bæði á maharati og ensku, og svo var 10 sekúndna frestur til að ýta á rauðan, gulan eða grænan takka. Um leið og prófinu var lokið var nafni og fjölda réttra svara varpað á skjáinn (engin persónuvernd hér), og þeir sem féllu með minna en 6 rétt voru merktir með rauðu. 9 manns af 41 yfirgáfu salinn en afgangurinn fór inn í næsta herbergi og fengu „Learners licenece“ plastað og tilbúið nokkrum mínútum seinna.
Eftir mánuð get ég svo farið aftur og tekið verklega prófið, en mér skilst að þá þurfi ég bara að aka í nokkra hringi á mótorhjóli. Eftir það fæ ég alvöru skírteini og get farið að hjóla löglega í vinnuna.

iPhone 3G lendir á Indlandi í dag. Það er reyndar engin 3G þjónusta á Indlandi ennþá, þar sem 3G uppboðið verður sennilega ekki fyrr en í desember og það gæti tekið ansi langan tíma að fá 3G dreifikerfið í gang „á indverskri tímaáætlun“.
Það er því kannski full snemmt að fara að kaupa 3G síma hér, en iPhone er iPhone og skert notagildi hefur aldrei stoppað græjusjúklinga...
Það var reyndar ekkert gefið upp um verð, binditíma, eða hvaða fídusar eru í boði svo fyrr en í dag, og enn er mörgum spurningum svarað með að „það verði tilkynnt síðar“. Hann er ólæstur (hægt að nota alls staðar) en verðið finnst mér helvíti hátt (31000 INR eru tæpar 60000kr.). Ég ætla samt að bíða aðeins með að panta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Konan mín er með 3 ára samning í skátamiðstöð hérna, svo að ég er að vinna í fjarvinnu fyrir Frisk á meðan.

Einar Jón, 22.8.2008 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband