Mumbai (aftur?) + ferðaplan

Síðasta námskeið í Sangam var 12 daga langt, svo að Eszter fékk 3 frídaga í röð þegar því lauk. Við notuðum tækifærið og fórum til Mumbai í 2 nætur, eins og síðast. Nú var ákveðið að fara að morgni en ekki að kvöldi og spara þannig eina nótt á hóteli.

Ferðalagið hófst sem sagt á sunnudagsmorgni þegar við vöknuðum eldsnemma um moguninn og tókum strætó að lestarstöðinni. Þaðan var tekin rúta til Mumbai, sem skilaði okkur þangað á um 3 tímum. Þar fengum við okkur ferskar kókóshnetur, smábanana, samosa, djúpsteiktan lauk og fleira góðgæti í morgunmat. 

Eftir það rákumst við á Sari-búð til að „skoða“. Eftir rúman klukkutíma, tvær flöskur af vatni og tvo kaffibolla gengum við út tveimur sari-um ríkari en nokkrum þúsundköllum fátækari. Þaðan var stefnan loksins tekin á hótelið. Við völdum annað hótel en síðast, og þetta skiptið vorum við bæði með passa meðferðis til að forðast leiðindi. Það skipti þó ekki máli þar sem nú aðeins þurfti að skrá minn passa.

Hótelið var vel staðsett og í alla staði til fyrirmyndar. Næstu 2 sólarhringar fóru í minjagripa-, fata- og jólagjafasöfnun úti um alla borg í steikjandi hita, og við skemmtum okkur mjög vel. Við íhuguðum að kaupa bílfarma af antíkhúsgögnum í Mutton street, en hættum við á síðustu stundu.

Heimferðin var sér kapítuli út af fyrir sig. Um þrjúleitið á 3. degi ákváðum við að við værum orðin of þreytt til að gera meira og ákváðum að fara heim. Við tókum leigubíl að næstu lestarstöð, en þegar þangað var komið voru engar rútur þar, og það rifjaðist upp fyrir mér að engar rútur eru á þeirri stöð. Við fórum því beint að leigubílastandinum við lestarstöðina, en vegna þreytu vorum við líka búin að gleyma því að óheiðarlegustu leigubílstjórarnir safnast saman við flugvelli og lestarstöðvar til að svindla á ferðamönnum.
Eftir smá hark við bílstjóra sem vildu 150-200 rúpíur (margfalt taxtaverð) fyrir 20 mínútna skutl var okkur troðið inn í leigubíl og sagt að bíða eftir bílstjóra sem væri tilbúinn að ferja okkur samkvæmt mæli. Það voru sennilega mistök, þar sem hann keyrði okkur í hringi í rúman klukkutíma þar til ég bað hann að hætta því og koma okkur á stöðina. Hann reyndi svo að rukka 210 rúpíur samkvæmt næturálagi, af því að við vorum á annatíma. Við neituðum harðlega þar sem mælirinn sýndi 140 rúpíur - tvöfalt meira en sambærileg ferð 2 dögum áður, og við borguðum á endanum 100.

Við náðum inn í rútu stuttu síðar, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema af því að rúðan við sætið okkar var brotin, og um það leyti sem við keyrðum inn fyrir borgarmörkin í Pune datt stærðar stykki úr rúðunni.

Þegar við komum aftur til Pune um tíuleytið fréttum við að Monsúnrigningin væri loksins komin, þar sem það hafði rignt nær stanslaust öll 3 kvöldin, og það hafði flætt um allar götur og meira að segja inn í herbergið okkar í Sangam. Það hefur ekki rignt síðan svo við höfum komist alveg merkilega þurr í gegnum þetta monsúntímabil.

--

Hér er allt gott að frétta.  Íbúðin er loksins orðin tandurhrein, og skrifstofan er alveg að verða næstum því hér um bil tilbúin. Það eru menn að leggja nýjar raflagnir, lýsingu og net í hana í dag, og eftir það ætti ég að geta flutt inn.

Við fljúgum til Vínar 14. sept. og erum að spá í að fara þaðan til Prag, því Eszter vill endilega hitta tengdaforeldrana áður en þeir fara heim að morgni 15.  Þaðan förum við svo til Búdapest þar sem við verðum í tæpa viku. 20. september förum við þaðan - Eszter til Indlands að velja nýjan stjóra í Sangam, en ég kem til Íslands í 3 vikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að heyra frá ykkur og Eszter mín, þú ert yndisleg tengdadóttir    að vilja hitta okkur í Prag. Það verður skemmtilegt. Ég hlakka til.

Einar fær líklega nóg af því að vera hjá okkur í 3 vikur.

FK tengdó (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband