Færsluflokkur: Bloggar

Búinn að blogga um þetta

Sjá síðustu færslu.
mbl.is Hryðjuverkaárás á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprenging í Pune

Fyrir um 2 tímum varð sprenging í "þýska bakaríinu" hér í Pune. Enginn virðist vita mikið um upptökin, en LPG (Liquid Propane Gas) gastankur virðist hafa sprungið með hörmulegum afleiðingum - 8 látnir og 33 slasaðir.

Lítið er vitað um orsakir ennþá -  þetta gæti hafa verið slys, en samtökin Shiv Sena hafa verið með læti vegna fyrirhugaðrar frumsýningar á nýjustu mynd Shah Rukh Khan, My name is Khan. Hætt var við frumsýningu í öllum sölum í Pune í gær vegna mótmæla, en á meðan fóru sýningar fram í Mumbai eins og ekkert hefði í skorist.

German bakery er vinsæll viðkomustaður ferðamanna - sérsaklega hjá þeim sem stunda Osho-ið í næstu götu. Við þekkjum engan sem var á svæðinu þegar sprengingin varð, og ekkert hefur komið fram í fréttum hvort þeir sem urðu fyrir sprengingunni voru Indverjar eða útlendingar.

Ítarefni á Google News.


Jólakveðja/Christmas greeting

Jólabréfið frá okkur er bara á tölvutæku formi í ár. Þetta eru 3 blaðsíður með myndum, svo það gæti tekið smá tíma að sækja það.

Ýtið á „Jólakortið í ár“ eða  "This year's christmas card" hér að neðan. Athugið að báðir linkarnir vísa í sömu skrána.

--

Our ckristmas letter will only be digital this year. It's 3 pages with pictures, so it might take a while to download.

Press „Jólakortið í ár“ or  "This year's christmas card" below to download. Note that both links point to the same file.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óþolandi ástand

Hér í Pune er flensufárið enn í gangi. Skv. nýjustu tölum höfðu rúmlega 400 smitast og a.m.k. 12 látist samkvæmt opinberum tölum. Hugsanlega eru tölurnar hærri þar sem það tekur 2 daga að fá niðurstöður úr flensuprófinu, og það vilja ekki allir í bíða í nokkra klukkutíma í biðröð með öðrum sem eru líkega smitaðir.

Bíóin eru lokuð ennþá, og skemmtistaðir annað hvort auðir eða lokaðir. Veitingastaðir og búðir eru flestar opnar eins og venjulega, en núna er ekkert vandamál að finna sæti á stöðum sem eru venjulega troðfullir allan daginn. Útlendingar eru litnir hornauga, rickshaw bílstjórar neita að taka útlendinga og margir setja upp grímur rétt á meðan þeir ganga framhjá okkur eða afgreiða okkur í búðum, sem er nokkuð skondið í ljósi þess að enn hefur ekki einn einasti útlendingur greinst með svínaflensu í Pune.

Eitt að staðarblöðunum er búið að grafa upp "sökudólginn", en mér finnst full gróft að kenna honum um allt saman. En blaðamenn hér virðast þó rannsaka málin ofan í kjölinn, ólíkt liðleskjunum á Íslandi sem annað hvort bíða eftir fréttatilkynningum frá fyrirtækjum eða þýða erlendar fréttir hugunarlaust.

Við Eszer ætluðum að fara á ströndina eða í "hill station" í fríinu hennar, en fylkið hafði gefið út tilskipun um að loka túristastöðum vegna flensunnar svo að við gátum ekkert farið.

Aðstoðar-dagskrárstjórinn í Sangam er með ágætis samantekt á ástandinu, á ensku.


Fréttir frá Pune

Það er stórfurðulegt ástand hérna. Næstum allir ganga með grímur fyrir vitunum þessa dagana, eða hafa þær um hálsinn og setja þær upp þegar útlendingar nálgast. Í staðarblöðunum eru langar greinar um svínaflensuna, áhættuhópa og smitleiðir, og fullyrt að flestar grímur sem menn nota (nema helst N95 og vasaklútar) séu gagnslausar. N95 grímur hafa víst sjöfaldast í verði síðustu daga.

Eins og segir í fréttinni eru skólar lokaðir í viku en einnig var öllum kvikmyndahúsum lokað í 3 daga. Það var rætt um að loka öllum börum kl. 21:00 á kvöldin til að hindra útbreiðslu, en það varð víst ekkert úr því.

Af kurteisi við vinnustaðinn ætla ég að vera heimavinnandi fyrstu vikuna, en þar ganga allir með grímur og bryðja Septilin og C-vítamín af mikum móð.

Konan er með 66 manna námskeið í Sangam fyrir útlendinga. Þau áttu að vinna sjálfboðastörf í barnaheimilum og munaðarleysingjahælum í borginni en þau þorðu ekki að taka á móti svona pestargemlingum. Bollywood danskennarinn þorði heldur ekki að koma að kenna svo það hefur þurft að gera miklar breytingar á dagskránni.

En það verður samt að hafa í huga að það eru bara rétt um 60 búnir að greinast með flensuna í 5-6 milljóna borg. 4 látnir úr svínaflensu og allir ganga með grímur. Milljónir deyja úr alnæmi og enginn nennir að nota smokka.
mbl.is Skólum lokað vegna H1N1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn aftur

Þá er maður lentur aftur á Indlandi, eftir 30 tíma ferðalag og um 20 tíma í svefnmóki sem hófst skömmu eftir heimkomuna.

Búinn að eiga mjög gott sumar á Íslandi; eftir 4 mánaða slag við útlendingaeftirlitið hérlendis var mjög gott að komast heim aftur. Hér eru allir að missa sig vegna svínaflensunnar, en meira af því seinna.


Fréttir

Það er búið að vera allt of heitt síðustu mánuði svo að ég hef ekki verið í skapi til að gera nokkurn skapaðan hlut.

Ég gat ekki einbeitt mér í vinnunni vegna hita (35-45° alla daga), svo að ég endaði á að taka mér frí frá vinnu á meðan það gekk yfir.

--

Vegabréfinsáritunin virðist vera komin í réttan farveg. Eftir þrjá og hálfan mánuð án þess að nokkuð gerðist borguðum við "agent" í Delhi stórfé til að aðstoða okkur við að fá þetta á hreint. Hann lofaði því að redda málunum á 1 viku, og eftir 2 vikur var hann kominn með bréf í hendurnar sem segir að við ættum að fá eins árs framlengingu á vegabréfsárituninni. Þetta er örlítið of seint fyrir Eszter, sem hafði vonast til að fara á ráðstefnu í London í gærkvöldi, en í staðinn erum við að spá í að koma bæði til Íslands á næstu dögum. Ég ætla að vera eitthvað lengur til að reyna að gera eitthvað gagn í vinnunni (ef þeir muna þá eftir mér ennþá), og kannski hjálpa eitthvað til á Roverway.

Bréfið er núna á leiðinni til Pune með Fedex, og ætti að berast til okkur á morgun, svo að við ættum að vera komin með vegabréfsáritun á morgun eða hinn daginn. Þessi rúmlega 4 mánaða bið er því vonandi loksins á enda.

 --

Eszter er búin að vera miklu duglegri að blogga heldur en ég. Á blogginu hennar er hún farin að setja inn myndir og vídeó, og setur venjulega inn samantekt á ensku svo að fleiri skilji hvað hún er að bulla um.

 --

Fyrir nokkrum vikum fórum við í brúðkaup hjá einum af starfsmönnunum hjá Sangam. Myndir eru komnar á Picasa.


Trúir þú á drauga?

Á miðvikudaginn fórum við Eszter í partí með nokkrum af sjálfboðaliðunum hjá Deep Griha. Þetta var kveðjupartí fyrir Argentínumann sem hafði verið hérna í hálft ár, svo að á svæðinu var ágætis blanda af Indverjum og útlendingum. Þar sem við Eszter höfðum bæði fengið okkur í glas skildum við hjólið eftir og tókum rickshaw heim um miðnætti. Á leiðinni stoppuðum við í Sangam og ég stökk út að sækja dót. Ég sá engan á svæðinu en á leiðinni til baka geltu hundarnir að mér (eins og þeir gera við alla á næturnar) þar til ég var kominn að útidyrunum.

Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að morguninn eftir fréttum við að næturvörðurinn neitaði að mæta í vinnuna þar sem hann hafði séð draug. Þessi draugur var víst ljós yfirlítum, í stuttermaskyrtu og fór mjög hratt yfir. Hundarnir geltu að draugnum en hættu skyndilega - og svo hvarf hann.

Næturvörðurinn gerði það skynsamlegasta í stöðunni... vakti annan starfsmann og son hans, og svo eyddu þeir næstu 2 tímunum í að leita að draugnum. Aðrir sem búa í Sangam voru líka vaktir og spurðir hvort þeir hefðu orðið varir við drauginn og úr varð heljarinnar húllumhæ.
Aðspurður sagði næturvörðurinn að draugurinn líktist mér, en þar sem hann heyrði ekki í mótorhjólinu mínu gat þetta ekki verið ég.

Rakhnífur Occams er stundum ekkert sérlega beittur á Indlandi...

 --

Við erum loksins komin með nettengingu í íbúðinni. Fyrst ætluðum við að skipt við Reliance, þar sem þeir hafa bestu tenginguna sem nær yfir hverfið okkar. Við eyddum nokkrum vikum í að hringja í þjónustumenn frá því fyrirtæki, en einhverra hluta vegna gátu þeir ekki boðið okkur upp á neitt nema 6000kr háhraðatengingu, allir aðrir valkostir voru "ekki í boði lengur" - þó að nágrannar okkar hafi 2000kr tengingu á lægri hraða.

Á endanum gáfumst við upp á þessu rugli og fórum aftur til þjónustuaðilans sem við vorum með í fyrra. Þá var tengingin frekar léleg og það tók þá 6 vikur að senda þjónustumann að skoða málin eftir að ég hringdi ítrekað og sagði að símalínan væri örugglega slitin. Þegar hann loksins kom, 8 dögum áður en samningurinn rann út, var hann ekki lengi að komast að því að það þyrfti að skipta um símalínu.

Sú lína er nú í loksins komin í notkun, og við keyptum líka þráðlausan router svo að við getum bloggað og skæpað af svölunum eða úr sturtunni ef áhugi er fyrir því.

 --

Um síðustu helgi fórum við á tónleika hjá hjómsveitinni Swarathma, sem er virkilega áhugavert band, þó að við skiljum ekki textana. Það er hægt að hlusta á þá á MySpace.

--

Myndir frá Darjeeling eru komnar á Picasa.


Darjeeling

Um páskana var planið að fara á IMWe, og koma síðan heim til Íslands á meðan hitinn væri hvað mestur hér á Indlandi. En þar sem vegabréfsáritunin er ekki ennþá komin eftir rúma 3 mánuði máttum við ekki yfirgefa landið. Við sátum því uppi með páskafrí sem þurfti að nýta.

Þar sem við vildum forðast hitann var eina leiðin að flýja til fjalla, og varð Darjeeling fyrir valinu. Við flugum til Calcutta á og eyddum deginum í steikjandi hita þar. Um kvöldið tókum við svo næturlest að rótum Himalayafjalla, og þaðan skröltum á jeppa upp stórhættulega fjallvegi til Darjeeling á morgni pálmasunnudags.

Í Darjeeling tók við algjör afslöppun í heila viku. Það er þó ekki þar með sagt að við höfum ekki hreyft okkur neitt því Darjeeling er samansafn af brekkum, og fljótlegasta leiðin á milli staða var að ganga, svo að við löbbuðum sennilega meira þessa viku en á meðalmánuði.

Við sáum tinda Himalayafjalla, fórum í dýragarðinn og á teplantekrur, lásum bækur og borðuðum momo og drukkum Darjeeling-te og tíbeskt smjör-te. Hitinn var mun bærilegri en í Pune (minnti svolítið á íslenskt vorveður) svo að við notuðum 66°N flíspeysurnar, sokka og gönguskó í fyrsta skipti síðan við komum til Indlands. Eszter keypti vestur-bengalskt silki-sari en annars keyptum við lítið annað en te.

Á einu hótelinu sem við gistum á var arinn svo að við gátum hlýjað okkur við hann, en á hinum hótelunum voru næturnar skítkaldar.

Á páskadag var svo kominn tími til að halda heimleiðis. Við tókum leikfangalestina niður fjallið, og mættum tímanlega í lestina. Vagninn okkar var sá þriðji í röðinn af fjórum, og við vorum ánægð með plássið þar sem það var bara einn annar farþegi i okkar vagni. Svo fór lestin af stað, en hún tók bara 2 vagna með sér og skildi okkur eftir á brautarstöðinni. Við eyddum næsta hálftímanum í að öskra á stöðvarstjórann fyrir að merkja vagnana ekki rétt, en að lokum fengum við far með næstu lest. Dagurinn fór bara versnandi eftir það, og endaði á hlaupum á lestarstöðinni í New Jalpaiguri þar sem við vorum 2-3 mínútur frá því að missa af lestinni.

--

Vegabréfsáritunin er sem áður segir ennþá í rugli. Ég fór til Mumbaií síðustu viku til að reyna að liðka fyrir ferlinu, og kom til baka með bréf um að einn reitur í skýrslunni um annað okkar var óútfylltur. Þar sem skýrslan var á Maharati er erfitt að segja til um hvað vantaði, en gaurinn sem fyllti hana út ber líklega ábyrgð á mestallri töfinni - því það tók hann hátt í mánuð að skila þessari skýrslu af sér í febrúar.

Við heimsóttum þá nánast daglega í þessari viku, og í gær var ég orðið það þekkt andlit að þeir tóku fram möppuna okkar án þess að þurfa að fletta mér upp. Núna er semsagt loksins búið að fylla í þennan reit, og pappíranir áttu að fara til Mumbai seinna sama dag til samþykktar. Í næstu viku gæti eitthvað farið að gerast.


Fréttir

11. mars var Holi haldinn hátíðlegur á Indlandi. Holi er vægast sagt áhugaverður dagur, þar sem allir henda lituðu dufti eða vökva hver á annan.

 

Við fórum í Holi-partí hjá konu sem framleiðir náttúrulega Holi liti sem var auðvelt að þvo af sér, þó að fötin séu ennþá skærgul. Sjálboðaliðarnir notuðu ódýrari liti, og þeir voru í öllum regnbogans litum það sem eftir var vikunnar. Myndir af stelpunum má sjá á Facebook, og af okkur á Picasa.

--

Um síðustu helgi fórum við svo í afslöppun til Goa, þar sem við gerðum nákvæmlega ekki neitt í 2 daga nema borða, drekka kaffi og slappa af. Mér tókst samt að sólbrenna vel á bakinu.

--

Vegabréfsáritunin er að gera okkur gráhærð. Ég fór í síðustu viku að tala við gaurana í útlendingaskráningunni, og þeir sögðu að pappírarnir væru í Mumbai, og við myndum fá símtal þegar þetta væri tilbúið. Ég fór svo aftur í þessari viku til að tékka á stöðunni, og þá var mappan okkar á borðinu hjá þeim.
Eftir smá grams í pappírunum og samráð við yfirmann var okkur sagt að mappan ætti að fara til Mumbai, og það yrði gert í næstu viku. Þegar ég spurði hvort þeir hefðu farið þangað áður eða ekki var svarið bara clerical mistake svo að annað hvort gleymdist að fylla eitthvað út meðan mappan var í Mumbai, eða það gleymdist að senda hana þangað. Seinni skýringin er trúlegri, miðað við fyrri reynslu.

Það er samt ótrúlega pirrandi að heyra það á mánudegi að mappan verði send af stað í næstu viku.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband