Darjeeling

Um páskana var planið að fara á IMWe, og koma síðan heim til Íslands á meðan hitinn væri hvað mestur hér á Indlandi. En þar sem vegabréfsáritunin er ekki ennþá komin eftir rúma 3 mánuði máttum við ekki yfirgefa landið. Við sátum því uppi með páskafrí sem þurfti að nýta.

Þar sem við vildum forðast hitann var eina leiðin að flýja til fjalla, og varð Darjeeling fyrir valinu. Við flugum til Calcutta á og eyddum deginum í steikjandi hita þar. Um kvöldið tókum við svo næturlest að rótum Himalayafjalla, og þaðan skröltum á jeppa upp stórhættulega fjallvegi til Darjeeling á morgni pálmasunnudags.

Í Darjeeling tók við algjör afslöppun í heila viku. Það er þó ekki þar með sagt að við höfum ekki hreyft okkur neitt því Darjeeling er samansafn af brekkum, og fljótlegasta leiðin á milli staða var að ganga, svo að við löbbuðum sennilega meira þessa viku en á meðalmánuði.

Við sáum tinda Himalayafjalla, fórum í dýragarðinn og á teplantekrur, lásum bækur og borðuðum momo og drukkum Darjeeling-te og tíbeskt smjör-te. Hitinn var mun bærilegri en í Pune (minnti svolítið á íslenskt vorveður) svo að við notuðum 66°N flíspeysurnar, sokka og gönguskó í fyrsta skipti síðan við komum til Indlands. Eszter keypti vestur-bengalskt silki-sari en annars keyptum við lítið annað en te.

Á einu hótelinu sem við gistum á var arinn svo að við gátum hlýjað okkur við hann, en á hinum hótelunum voru næturnar skítkaldar.

Á páskadag var svo kominn tími til að halda heimleiðis. Við tókum leikfangalestina niður fjallið, og mættum tímanlega í lestina. Vagninn okkar var sá þriðji í röðinn af fjórum, og við vorum ánægð með plássið þar sem það var bara einn annar farþegi i okkar vagni. Svo fór lestin af stað, en hún tók bara 2 vagna með sér og skildi okkur eftir á brautarstöðinni. Við eyddum næsta hálftímanum í að öskra á stöðvarstjórann fyrir að merkja vagnana ekki rétt, en að lokum fengum við far með næstu lest. Dagurinn fór bara versnandi eftir það, og endaði á hlaupum á lestarstöðinni í New Jalpaiguri þar sem við vorum 2-3 mínútur frá því að missa af lestinni.

--

Vegabréfsáritunin er sem áður segir ennþá í rugli. Ég fór til Mumbaií síðustu viku til að reyna að liðka fyrir ferlinu, og kom til baka með bréf um að einn reitur í skýrslunni um annað okkar var óútfylltur. Þar sem skýrslan var á Maharati er erfitt að segja til um hvað vantaði, en gaurinn sem fyllti hana út ber líklega ábyrgð á mestallri töfinni - því það tók hann hátt í mánuð að skila þessari skýrslu af sér í febrúar.

Við heimsóttum þá nánast daglega í þessari viku, og í gær var ég orðið það þekkt andlit að þeir tóku fram möppuna okkar án þess að þurfa að fletta mér upp. Núna er semsagt loksins búið að fylla í þennan reit, og pappíranir áttu að fara til Mumbai seinna sama dag til samþykktar. Í næstu viku gæti eitthvað farið að gerast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er gaman að sjá svona mikið af fallegum myndum. Ég er meira að segja að reyna að stauta mig fram úr ungversku skýringunum.

Vonandi rætist úr visa málum sem allra fyrst.

Knús til ykkar beggja frá eplafamilíunni sem á von á ömmu Fanneyju eftir örfáa daga.

Una og fjsk. (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 18:25

2 identicon

Jæja, gaman á Indlandi. Ef þið viljið lesa góðar fréttir okkar, vinsamlegast lærið ungverska og lesið http://esztertoth.blogspot.com/.

Eszter (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband