Afi Tóth kominn heim

Á föstudaginn fórum við Eszter til Mumbai til að koma afanum heim til Budapest. Af öryggisástæðum má enginn fara inn í flugstöðvarbyggingar á Indlandi nema hafa farseðil, svo hann þurfti að tékka sig inn sjálfur. Hann átti pantað beint flug frá Mumbai til Vínar, og við vorum búin að ákveða að sýna honum Mumbai um daginn. Síðan ætluðum við að fara með hann á hótel nálægt flugvellinum þar sem hann gæti lagt sig, borða góðan kvöldmat og fara svo á flugvöllinn um miðnætti svo að hann hefði nógan tíma til að tékka sig inn. 

3 dögum fyrir brottför fengum við tilkynningu um flugið hafi verið fellt niður, og hann ætti að fljúga til Delhi klukkan 8 um kvöldið, og skipta þar um flugvél. Ferðaskrifstofan gaf engar upplýsingar í póstinum, og svaraði ekki spurningum frá okkur með öðru en því að til að fá aðstoð væri best að biðja um hjólastól fyrir hann. Þetta fannst  okkur ekki sæmandi þar sem hann hafði keypt "No problem" viðbótarþjónustu - og við flokkum það sem "problem" að senda 85 ára gamalmenni sem talar ekkert nema ungversku eitt í millilendingu á indverskum flugvelli.

Þetta truflaði planið okkar svolítið, en við létum það ekki koma að sök. Við prentuðum spjöld sem á stóð "I'm going to Vienna via Delhi" og "I need a wheelchair" til að hengja um hálsinn á honum, og tókum rútu til Mumbai um morguninn. Eszter fór svo með hann á helstu túristastaðina í Mumbai og við tókum leigubíl á flugvöllinn um fjögurleytið. Umferðin var brjáluð svo að það tók 2 tíma að komast á flugvöllinn. Klukkan 6 vorum við semsagt komin á alþjóðaflugvöllinn, en komumst að því að flugið var frá innanlandsflugvellinum, svo að við þurftum að fara þangað í flýti. Við hlupum inn í rickshaw sem sagði að 15 mínútna skutl kostaði 350 rúpíur (meira en 2 tímar í leigubíl), en við höfðum ekki tíma til að rífast við hann. Hann var samt vel sáttur við 100 rúpíur þegar við vorum komin á áfangastað, einum og hálfum tíma fyrir brottför.

Á innanlandsflugvellinum fékk Eszter að fara með hann að þjónustuborðinu þar sem hún útskýrði stöðuna. Það kom í ljós að fluginu hafði seinkað um nokkra klukkutíma, svo að hann myndi að öllum líkindum missa af tengifluginu. Sem betur fer var fólk með viti á flugvellinum svo að hann var settur á standby í flugi sem átti að fara í loftið klukkan 6. Hann fékk líka hjólastól, en í stað þess að setjast skellti hann töskunum sínum á hann og ætlaði að ýta þeim þannig. Eszter benti honum á að fólk myndi ekki trúa því að hann þyrft aðstoð, svo hann fékk sér sæti. Síðan var Eszter vísað út og við biðum fyrir utan í rúman klukkutíma eftir staðfestingu á að það væri pláss fyrir hann um borð í fyrra fluginu, sem fór loksins í loftið um hálfníu.

Við fréttum daginn eftir að hann hefði komist alla leið, en þar sem hann fann ekki flugmiðann sinn í Delhi hefði hann eflaust orðið strandaglópur þar ef hann hefði ekki haft  "I'm going to Vienna via Delhi" miðann um hálsinn og fengið hjálp frá öðrum farþegum sem voru leið til Vínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hefur verið mikið stress. Frábært hjá honum að komast svona heimshorna á milli. Ég er viss um að hann lifir á þessari ferð næstu áratugina.

Hvenær takið þið á móti næstu gestum?

fk (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 17:37

2 Smámynd: Einar Jón

Það er ekkert planað ennþá...

Hvenær viltu koma?

Einar Jón, 18.2.2009 kl. 07:21

3 identicon

Eftir að hafa skoðað myndirnar og heyrt allar sögurnar erum við hér í Victoria Road á því að afi Toth sé svoooooo kúl! Erum að hugsa um að stofna aðdáendaklúbb. 

Una og Helgi (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband