1.5.2009 | 19:33
Trúir þú á drauga?
Á miðvikudaginn fórum við Eszter í partí með nokkrum af sjálfboðaliðunum hjá Deep Griha. Þetta var kveðjupartí fyrir Argentínumann sem hafði verið hérna í hálft ár, svo að á svæðinu var ágætis blanda af Indverjum og útlendingum. Þar sem við Eszter höfðum bæði fengið okkur í glas skildum við hjólið eftir og tókum rickshaw heim um miðnætti. Á leiðinni stoppuðum við í Sangam og ég stökk út að sækja dót. Ég sá engan á svæðinu en á leiðinni til baka geltu hundarnir að mér (eins og þeir gera við alla á næturnar) þar til ég var kominn að útidyrunum.
Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að morguninn eftir fréttum við að næturvörðurinn neitaði að mæta í vinnuna þar sem hann hafði séð draug. Þessi draugur var víst ljós yfirlítum, í stuttermaskyrtu og fór mjög hratt yfir. Hundarnir geltu að draugnum en hættu skyndilega - og svo hvarf hann.
Næturvörðurinn gerði það skynsamlegasta í stöðunni... vakti annan starfsmann og son hans, og svo eyddu þeir næstu 2 tímunum í að leita að draugnum. Aðrir sem búa í Sangam voru líka vaktir og spurðir hvort þeir hefðu orðið varir við drauginn og úr varð heljarinnar húllumhæ.
Aðspurður sagði næturvörðurinn að draugurinn líktist mér, en þar sem hann heyrði ekki í mótorhjólinu mínu gat þetta ekki verið ég.
Rakhnífur Occams er stundum ekkert sérlega beittur á Indlandi...
--
Við erum loksins komin með nettengingu í íbúðinni. Fyrst ætluðum við að skipt við Reliance, þar sem þeir hafa bestu tenginguna sem nær yfir hverfið okkar. Við eyddum nokkrum vikum í að hringja í þjónustumenn frá því fyrirtæki, en einhverra hluta vegna gátu þeir ekki boðið okkur upp á neitt nema 6000kr háhraðatengingu, allir aðrir valkostir voru "ekki í boði lengur" - þó að nágrannar okkar hafi 2000kr tengingu á lægri hraða.
Á endanum gáfumst við upp á þessu rugli og fórum aftur til þjónustuaðilans sem við vorum með í fyrra. Þá var tengingin frekar léleg og það tók þá 6 vikur að senda þjónustumann að skoða málin eftir að ég hringdi ítrekað og sagði að símalínan væri örugglega slitin. Þegar hann loksins kom, 8 dögum áður en samningurinn rann út, var hann ekki lengi að komast að því að það þyrfti að skipta um símalínu.
Sú lína er nú í loksins komin í notkun, og við keyptum líka þráðlausan router svo að við getum bloggað og skæpað af svölunum eða úr sturtunni ef áhugi er fyrir því.
--
Um síðustu helgi fórum við á tónleika hjá hjómsveitinni Swarathma, sem er virkilega áhugavert band, þó að við skiljum ekki textana. Það er hægt að hlusta á þá á MySpace.
--
Myndir frá Darjeeling eru komnar á Picasa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.