Fréttir

Eszter er loksins komin frá London, þar sem hún var í starfsmannaviku í Pax Lodge, og skrapp í heimsókn til Helga, Unu og Iðunnar. Hún kom heim með alls konar dót frá Íslandi, þar á meðal súkkulaði-jóladagatal og jólasmákökur. Eins og við var að búast bráðnaði allt súkkulaðið í dagatalinu, en sörurnar virðasthafa sloppið.

Á meðan var ég að stússa í íbúðinni. Þó að málararnir hafi staðið sig ágætlega þurfti að bletta á nokkrum stöðum og endurbæta aðeins. Bleiki veggurinn okkar er orðinn jafn rauður og hurðirnar, og ég pússaði upp og málaði tvö borð sem litu vægast sagt hræðilega út fyrir mánuði síðan. Vaskurinn á baðinu fékk líka yfirhalningu eftir að ég braut óvart annan vinkilinn sem hélt honum uppi. Ég notaði tækifærið og málaði vegginn, skrapaði gömlu brúnu málninguna af öllu og hækkaði hann upp um 10cm svo að maður þarf ekki lengur að beygja sig niður til að þvo sér um hendurnar. Það var ekki bara gert til að fá að bora aðeins, hvað sem Una segir.

Mótorhjólið þurfti líka smá lagfæringar. Daginn áður en Eszter fór til London fengum við mengunarskírteini fyrir það, svo löggan getur hætt að sekta okkur fyrir að hafa það ekki. Ég fann loksins stað sem selur varahluti þ.a. ég eyddi hátt í þúsundkalli (340Rs) í nýjan hraðamæli, nýtt afturljós og ýmis konar smotterí. Loksins get ég séð hvað það er að eyða miklu - á fyrstu 2 lítrunum komst ég um 100km, sem er að ég held ekkert svo slæmt fyrir 20-30 ára mótorhjól með tvígengisvél og 2% CO útblástur. Rafkerfið er ennþá í einhverju rugli, flautan er léleg og fótbremsan bogin eftir að ég keyrði á kantstein, en annars er það í ágætis standi.

Við ætlum að senda jólakort, en þar sem við komumst varla í að skrifa þau fyrr en um helgina er líklegt að þau verði u.þ.b. mánuði of sein.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sein jólakort heita bara nýárskort í minni bók og eru alveg jafn skemmtileg og hin!

Una (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband