"Jólafrí" í október

Í síðustu viku var Diwali hér á Indlandi, sem eru nokkurs konar Hindúajól. Það þýddi náttúrulega ekkert að vinna á meðan svo að við Eszter fórum til Kerala í frí. Við vorum á ferð og flugi mestalla vikuna, og netlaus allan tímann svo það varð lítið úr reglulegum, stuttum uppfærslum á blogginu eins og ég hafði vonast til.

Kerala er hérað á suðurodda Indlands. Maharastra (þar sem við búum) og Kerala eru í raun eins ólík og Þýskaland og Spánn, svo það var margt að sjá þessa vikuna. Í Kerala er kristni ríkjandi, en trúin er samt að indverskum sið þ.a. víða eru búr með dýrlingum (í stíl við Ganesh-musterin hér) og Jesúmyndir með blikkandi ljósum voru í flestum rútum. Við vorum mest hissa á að sjá ekki 8 arma Maríu mey eða bláan Jesú með slöngu um hálsinn.

Eszter var spenntust fyrir því að prófa dosa (sem er nokkurs konar pönnukaka) á heimaslóðum þess en við komumst fljótt að því að maturinn í Kerala er alls ekkert spes, og það eru margir staðir í Pune sem bjóða upp á mun betri útgáfur af Kerala-réttunum. Sjávarréttirnir þar voru góðir, en inni í landi var fátt bitastætt á matseðlinum.

--

Við byrjuðum ferðalagið á því að taka rútuna til Mumbai á föstudagskvöldið. Þegar við komum að rútustöðinni var kílómetra löng röð að ríkisrútunum svo að við ákváðum að prófa einkareknu rúturnar til að spara okkur biðina. Það reyndist ekki spara mikið, þar sem einkarútan átti ekki að fara fyrr en 45 mínútum síðar, og við þurftum að bíða í hálftíma í viðbót eftir að hún færi af stað. Á endanum komumst við þó til Mumbai.

Laugardeginum eyddum við svo í Mumbai þar sem við uppgötvuðum lestina, sem kostar 4 rúpíur (ca. 10 kr.) og er mun fljótari á milli staða en leigubílarnir. Síðan var flogið til Cochin þar sem við eyddum fyrstu nóttinni. Við deildum leigubíl með stórskrýtnum Breta sem var að flytja til Indlands. Hann var kominn á eftirlaun og ætlaði að fá sér indverska konu (sem presturinn á eftir að velja fyrir hann) og opna heimagistingu. Heimagistingin átti svo að fjármagna munaðarleysingjahæli sem hann langaði að reka.

Sunnudagurinn fór í rölt um Fort Cochin, þar sem við keyptum heilan túnfisk og nokkrar rækjur af sjómönnum og létum elda þá á veitingastað skammt frá. Við borguðum full mikið fyrir fiskinn, en þegar veitingastaðurinn vild bæta við "Cooking charge" var okkur nóg boðið og við neituðum að borga. Eszter heimtaði líka að ég keypti karlapils (Lungi) í miðju túristasvæðinu, sem ég prúttaði niður um tæpan helming. Það kom sér ágætlega í hitanum en nokkrum tímum seinna (utan túristasvæðisins) sáum við sams konar Lungi á 1/3 af því sem ég hafði borgað. Við komum svo á rútustöðina um fimmleytið og fengum að vita að næstu rútur til Munnar færu kl. 6, 7 og 8:30. Rétt fyrir 6 ætluðum við að taka rútuna, en þá fengum við að vita að hann átti við kl. 6, 7 og 8:30 morguninn eftir. Við vorum frekar spæld, rúma 100km frá gististaðnum okkar, en hoppuðum upp í næstu rútu til Kotamangalam, sem tók okkur hálfa leið. Þegar þangað var komið voru allir mjög hjálpsamir, en enginn vissi hvaða rútu við áttum að taka svo að við hlupum um eins og hauslausar hænur þar til okkur var loksins bent á rétta rútu, til Adimali. Hún tók okkur aftur um hálfa leið, og síðustu 25 kílómetrana (45 mín á kræklóttum vegum) fórum við með leigubíl.

Við vorum 2 nætur í Munnar, eyddum mánudeginum í afslöppun og skoðuðum fossa í nágrenninu. Við fengum far með indverskum hjónum frá Gujarat sem voru hér í brúðkaupsferð, en annars gerðist fátt markvert. Næsta stopp var Thekkady, í 55 km fjarlægð í loftlínu, en 130km á vegum. Þar sem við nenntum ekki að skrölta þessa leið í rútu sömdum við við leigubílstjóra um að sækja okkur á hótelið kl. 7. á þriðjudagsmorguninn.

Við vorum komin til Thekkady um 11-leytið, og komumst að því að við höfðum keyrt framhjá hótelinu okkar klukkutíma áður. Við vorum hundóánægð með að það skyldi auglýsa í Thekkady svo að við hringdum og afpöntuðum, og létum í staðinn draga okkur á mun ódýrara hótel. Þann daginn fórum við svo í reiðtúr á fílsbaki og sáum Khatakali danssýningu.

Á miðvikudag var farið til Alleppy, þar sem við eyddum 2 dögum og hittum sjálfboðaliðana úr Sangam. Seinni daginn tókum við húsbát á leigu, og rúntuðum um skurðina í kringum Alleppy í sólarhring. Það er mjög afslappandi að hafa 3 starfsmenn sem snúast í kringum mann, en við eyddum mestöllum tímanum liggjandi á svölunum að lesa og njóta útsýnsins.

Á föstudaginn lokuðum við hringnum með því að taka lestina til Cochin með sjálfboðaliðunum og fljúga til Mumbai. Sangam-bíllinn sótti okkur svo og kom okkur heim um eittleytið.

--

Það er nátturulega lítið gaman að lesa þetta án þess að sjá myndir, svo ég þarf að drífa í að koma þeim á netið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hefur verið mikil ævintýraferð, eins og venjulega hjá ykkur. Og endalaus eltingarleikur við rútur og lestar. Nú þurfið þið að fara að skipuleggja ferð fyrir okkur foreldrana. Það er aldrei að vita hvenær við heimsækjum ykkur. 

Fanney (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband